145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

framtíð sjávarútvegsbyggða.

[11:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. 5,3% eru held ég reyndar umtalsvert meiri en þingmaðurinn nefndi. Ég held að það séu um 30 þús. tonn í þorskígildum og það er auðvitað engin ölmusa, það eru almennar reglur, byggðakvótinn annars vegar og strandveiðarnar er auðvitað löggjöf sem allir geta tekið þátt í, síðan eru sérákvæði varðandi línuívilnun og bótakerfið o.s.frv. Allt þetta er til endurskoðunar. Ég fól atvinnuveganefnd í fyrra að fara yfir kerfið eins og það er í dag. Þeir fengu á sinn fund mjög marga aðila. Menn voru sammála um að skoða þyrfti fjölmarga þætti. Þó svo að það hafi ekki verið niðurstaðan í þingsályktunartillögunni sem var lögð fram síðastliðið vor þá voru menn sammála um að halda áfram á þeirri braut. Ég mun hafa náið samstarf við alla þingmenn í atvinnuveganefnd til þess að vinna að því vegna þess að það skiptir miklu máli að um þá aðferð og þá leið sem við ætlum að fara, ríkisvaldið, sé pólitísk sátt og hún muni skila byggðafestu, raunverulegum ákvörðunum og að kerfið sem við ætlum að hafa til lengri tíma verði (Forseti hringir.) betra en það sem við höfum haft. (Forseti hringir.) Við þekkjum fjölmörg dæmi þess að einstaka byggðir hafa látið (Forseti hringir.) undan síga, en það er ekki síður vegna þess að (Forseti hringir.) aðrir hlutir eru ekki komnir í gang á þeim svæðum. Að því þurfum við líka að vinna.