145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

búvörusamningar.

[11:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða væntanlega búvörusamninga. Við í Bjartri framtíð höfum gagnrýnt mjög hversu miklir fjármunir fara til landbúnaðarstyrkja á Íslandi og höfum kallað eftir því að fram fari góð umræða um það alla vega hvernig þeir fjármunir mundu nýtast betur. Við höfum kallað eftir meiri fjölbreytni í styrkveitingum og líka kallað mjög eftir því að gætt sé umhverfissjónarmiða og að við stuðlum að vistvænum og sjálfbærum landbúnaði.

Ég á eftir að sjá í búvörusamningunum hvernig nákvæmlega þessum atriðum er mætt og hvernig fjárútlátin eru réttlætt. En eitt atriði sýnist mér að sé jákvætt, miðað við þær kynningar sem ég hef fengið á væntanlegum búvörusamningum, og það er að leggja eigi af kvóta í landbúnaði. Það sýnist mér vera viðleitni til þess að mæta breyttri heimsmynd. Við búum ekki lengur við hættuna á offramleiðslu í landbúnaði, þurfum ekki að búa við kvóta í landbúnaðarframleiðslu. Heimsmyndin sem blasir við einkennist af umframeftirspurn. Það er mikil eftirspurn eftir hreinum og góðum matvælum eins og Íslendingar framleiða og það er greinilegt að landbúnaðurinn á Íslandi horfir mjög til aukins útflutnings. Þannig túlka ég þetta. Þar liggja sóknarfærin í útflutningi á lambakjöti og útflutningi á skyri svo dæmi séu tekin.

Við búum við þann veruleika að í Evrópulöndunum, okkar helstu viðskiptalöndum, eru náttúrlega mjög háir tollar á landbúnaðarvörur. Ég heyri það úr röðum bænda að þeir eru orðnir áhugasamari um að njóta tollfrelsis í viðskiptum við Evrópu. Þá er bara ein leið. Það er að ganga í Evrópusambandið.

Það er það sem mér finnst mjög áhugavert í þessum búvörusamningum. Mér finnst þetta vera leið landbúnaðarins til þess að átta sig á því (Forseti hringir.) að næsta skref er auðvitað að ganga í Evrópusambandið og njóta tollfrelsis í viðskiptum með búvörur frá Íslandi. (Forseti hringir.) Mun því ekki landbúnaðurinn á Íslandi krefjast þess á næstu árum að við göngum í Evrópusambandið? Er það ekki kalt mat ráðherrans?