145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

búvörusamningar.

[11:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er margt í því sem hv. þingmaður fór yfir í fyrri hluta ræðu sinnar, um það hvað hann hefur heyrt að sé fyrirhugað í þeim samningi sem nú er á lokametrunum, sem horfir til betri vegar og við þingmaðurinn erum sammála um. Það er fjölbreyttari landbúnaður, það er að tryggja aukna og betri afkomu í landbúnaði, tryggja neytendum lágt verð og heilnæm og örugg matvæli. Við horfum til loftslagsmálanna og með hvaða hætti landbúnaðurinn geti lagt sitt af mörkum þar. Við horfum til þess að við getum tryggt að við séum með örugg matvæli hvað varðar til að mynda sýklalyfjaónæmi sem er vaxandi ógn í heiminum og einstaka sérfræðingar hafa líkt við loftslagsvána.

Það er hins vegar alrangt hjá þingmanninum að það sé bara til ein leið. Flest ríki heims fara þá leið að gera fríverslunarsamninga. Við erum held ég með eina 35. Við gerðum tollasamning við Evrópusambandið sem á eftir að koma inn í þingið samhliða búvörusamningum, en í honum felst gagnkvæmni þannig að íslenskur landbúnaður getur nýtt sér tækifæri þar. Í þeim samningum var til að mynda Evrópusambandinu boðið fullkomið tollfrelsi á inn- og útflutningi á lambakjöti en Evrópusambandið hafnaði því sem sýnir náttúrlega svartara á hvítu en nokkuð annað hvers lags tollabandalag Evrópusambandið í raun og veru er og heldur öllum öðrum frá. Tollmúrar þar eru á margan hátt miklu hærri en til að mynda á Íslandi þó (Gripið fram í.) að maður gæti haldið annað af umræðunni hér innan lands.

Samningarnir eru einmitt gerðir til þess að tryggja fjölbreyttari landbúnað, öflugari byggð og það sem við vorum að ræða hér áðan, byggðafestu. Á sama tíma á að skila neytendum sífellt lægra vöruverði og að tryggja þeim örugg og góð matvæli sem ég held að sé ekki bara (Forseti hringir.) krafa nútímans heldur verði það vaxandi krafa inn í framtíðina.