145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

búvörusamningar.

[11:06]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að veröldin einkennist af vaxandi eftirspurn eftir matvælum eins og þeim sem Íslendingar framleiða. Hrein og góð matvæli. Gæðamatvæli.

En ég hjó eftir einu í svari hæstv. ráðherra sem í mínum huga sem er stórfrétt, stór tíðindi. Íslendingar buðu sem sagt í viðræðum við Evrópusambandið tollfrjáls viðskipti með lambakjöt og fengu ekki vegna þess að Evrópusambandið vill setja á tolla. Við erum ekki í Evrópusambandinu. Þetta staðfestir í mínum huga það sem ég hef heyrt frá mörgum bændum að við viljum flytja út meira og það er mjög lítil samkeppni við íslenskt lambakjöt í raun og veru í Evrópu, í okkar helstu viðskiptalöndum. En við erum ekki í Evrópusambandinu og fáum þess vegna ekki fullan tollfrjálsan aðgang að þeim mörkuðum.

Mér sýnist það blasa við ef við tökum (Forseti hringir.) landbúnaðinn sem afmarkað dæmi á Íslandi að hann horfir til meiri útflutnings (Forseti hringir.) og það mun há því markmiði að við erum ekki í Evrópusambandinu.