145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TiSA-samningurinn.

[11:23]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það er háttur siðaðra manna og siðaðra þjóða að gera samninga sín á milli og við Íslendingar höfum gengið til margra alþjóðlegra samninga og yfirtekið margar alþjóðlegar skuldbindingar og þær skuldbindingar hafa yfirleitt verið gagnkvæmar.

Í þessu tilfelli er verið að ræða um þjónustuviðskipti og þjónustuviðskipti eru verulega stór hluti af innflutningi og útflutningi. Á síðasta ári voru þetta um 47% af heildarútflutningi og 38% af heildarinnflutningi. Ef ég kann rétt að reikna eru það um 20% af landsframleiðslu.

Þetta skiptir verulegu máli. Sérstaklega í samfélögum þar sem þjónusta er orðin hagvaxtarhlutinn og ýmsar íslenskar sérfræðigreinar verða að útflutningi. Þetta skiptir okkur verulegu máli.

Ég get einungis tekið undir orð hæstv. utanríkisráðherra um það að þegar ég hef ætlað að afla mér upplýsinga í þessum málum hefur það gengið þokkalega. Það kann að vera að mér gangi illa að finna samningsmarkmið annarra þjóða, enda tel ég að fullveldi þeirra sé til þess að hafa spilin á höndum sér.

En tilboð okkar liggur frammi og ég hef hvergi fundið það út að gerðardómurinn sé yfirtekinn af einhverjum alþjóðlegum fyrirtækjum. Gerðardómur er ríki á móti ríki og það er partur af niðurstöðu deilna að setja mál í gerðardóm og sömuleiðis hitt að ef gerðardómur er óhagstæður kann að vera að hægt sé að draga sig frá þessum samningi.

Ég tel að mjög mikilvægt sé að lýðveldið Ísland sé þátttakandi í (Forseti hringir.) alþjóðlegum samningum á sviði þjónustuviðskipta og fagna því að hæstv. ráðherra muni leggja fram frekari upplýsingar um málið eftir því sem því vindur fram.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.