145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TiSA-samningurinn.

[11:25]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil eiginlega ítreka það sem kom fram í ræðu minni í mars í fyrra þegar við áttum síðast sérstaka umræðu um TiSA-samninginn, að leggja áherslu á gagnsæi í þessari vinnu og að hlutir séu uppi á borðum. Ég fagna þeim orðum hæstv. utanríkisráðherra að þeirri stefnu sé fylgt. Það skiptir miklu máli, ekki aðeins almennt heldur hefur orðið sú þróun í upplýsingamálum og þeirri kröfu að almenningur geti fylgst með störfum opinberra aðila og leynimakk í kringum svona samningagerð er liðin tíð.

Ég vil sömuleiðis taka undir að það skiptir miklu máli fyrir Alþingi að við eigum ítarlegar umræður um málið áður en samningur verður staðfestur. Ég vil minna á að auðvitað eru þetta umræður sem eru í miðju kafi, væntanlega langar og flóknar áralangar umræður. Margt af því sem hefur komið fram í umræðunni um samninginn er jafnvel ekki uppi á borðinu eða eingöngu tillögur einhverra ríkja sem hafa ekki verið teknar inn. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga.

Auðvitað er mikilvægt að Ísland standi gegn því að það sé einhvers konar framsal valds til alræðis alþjóðlegra auðhringa án þátttöku okkar. Það bryti hreinlega í bága við íslenska stjórnarskrá að afhenda vald slíkum apparötum, þannig að það sé sagt.

En í grunninn tel ég að Ísland eigi að taka þátt í alþjóðlegum samningum. Það er hagur okkar sem smáríkis að það sé alþjóðlegt regluverk og alþjóðlegt umhverfi (Forseti hringir.) og við eigum að fylgja því eftir.