145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TiSA-samningurinn.

[11:32]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Umræðan um TiSA hefur snúist talsvert mikið um ímyndaða leyndarhyggju og að verið sé að markaðsvæða almannaþjónustu, einnig um að Íslendingar mundu mögulega tapa fullveldi sínu ef samningarnir færu í gegn.

Ég tek undir sumt af því sem bent hefur verið á. Við verðum vissulega að fara með gát og vera gagnrýnin. Það gladdi mig því að heyra í ræðu hæstv. utanríkisráðherra hversu virkt upplýsingaflæðið hefur verið varðandi TiSA-samninginn til almennings og umfangsmikið samráð hefur verið haft við fagráðuneyti, undirstofnanir og hagsmunasamtök eins og ASÍ og BSRB.

Sérstaka síðu má finna á vef utanríkisráðuneytisins þar sem birtar eru reglulegar fréttir af samningalotunum. Þar er tilgreint hverjir mæta á samningafundina fyrir hönd Íslands, hvað var rætt og hvenær næsti fundur er áætlaður ásamt þeim skjölum sem Ísland hefur lagt fram í þessum samningaviðræðum. Tel ég upplýsingagjöfina því til fyrirmyndar, bæði gagnvart almenningi og Alþingi.

Mér þykir einnig gott að heyra að íslensk stjórnvöld leggi ríka áherslu á að engar skuldbindingar verði gefnar varðandi markaðsaðgang fyrir erlenda þjónustuveitendur vegna þeirrar þjónustu sem nú er í höndum opinberra aðila og að Ísland hafi tekið skýrt fram að fyrir sitt leyti sé eignarhald á auðlindum og stjórn orkuauðlinda fyrir utan gildissvið tillögunnar sem lögð var fram. Þetta er mjög mikilvægt atriði.

Síðast en ekki síst mun Alþingi hafa aðkomu að málinu áður en samningurinn verður fullgiltur af hálfu Íslands eins og tíðkast hefur með fríverslunarsamninga. Ég tel því enga sérstaka hættu vera á ferðum. En þó er brýnt að við þingmenn höldum vöku okkar og þá sérstaklega hvað varðar mögulegt fullveldisframsal. Það kemur að sjálfsögðu ekki til greina.