145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TiSA-samningurinn.

[11:44]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ein söguleg staðreynd sem er rétt að halda til haga að gefnu tilefni. Þessar viðræður fóru ekki formlega af stað fyrr en sumarið 2013, í tíð núverandi ríkisstjórnar. Annars verð ég að segja það að með mikilvægum undantekningum hefur þessi umræða verið hrollvekjandi. Þá staðnæmist ég við þá yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra að hér sé um að ræða hefðbundnar viðskiptaviðræður. Það er ekki svo. Í þeim er fólgið fullveldisafsal. Samningarnir eru óafturkræfir. Ef ríki sem hafa undirgengist tiltekin ákvæði, draga þau til baka, þá eiga þau á hættu að vera skaðabótaskyld. Á þessu hvíldu GATT-samningarnir og ég veit ekki til annars en að enn sé unnið samkvæmt þessu.

Í annan stað er úrskurðarvald fært frá dómstólum undir gerðardóma, fært frá lýðræðinu til fjármagnsins. Þetta er staðreynd. Þetta er annað fullveldisafsal.

Hitt sem er hrollvekjandi er yfirlýsing hæstv. utanríkisráðherra um að hann útiloki ekki að þetta komi fyrir þingið áður en frá þessu verði gengið. Það er mat okkar margra að eðlilegast væri að við segðum okkur frá þessum samningum. En það er eindregin og afdráttarlaus krafa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hún hefur sent það frá sér ítrekað nú í dag, að við krefjumst þess að þetta mál verði tekið fyrir á Alþingi áður en nokkur stafur verður settur undir samninga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Síðan vil ég segja annað. Við höfum ekki fengið að vita hvað gerðist í Genf í desember síðastliðnum. Þar var rætt um Environmental Services í tengslum við orkuvinnslu. Nú er það svo að Íslendingar eiga mikið undir þjónustu við orkugeirann (Forseti hringir.) og það eru okkar hagsmuni að greiða götu slíkra fyrirtækja. En gera menn sér grein fyrir því að það er eitt að ganga til samninga við ríki, jafnvel fátæk ríki, (Forseti hringir.) um slíka aðstoð og slík viðskipti, en að þvinga þau og þröngva þeim inn í slíkt viðskiptamódel er siðlaust. Út á það ganga mótmælin (Forseti hringir.) frá hinum snauða heimi. Það er siðlaust að við skulum taka þátt í þessu samsæri gegn fátæku fólki í heiminum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)