145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

niðurstöður greiningar UNICEF á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

[11:55]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir frumkvæðið að þessari umræðu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þetta hér í þinginu og jafnvel að við stígum frekari skref í þá átt að gera það að reglu að fjalla um félagsvísana sem eru gefnir út reglulega af Hagstofunni og voru unnir að frumkvæði Velferðarvaktarinnar á sínum tíma.

Í upphafi vil ég sérstaklega fá að nota tækifærið, af því að það er svo ánægjulegt að við erum hér með fulltrúa frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna að fylgjast með umræðunni, og þakka þeim kærlega fyrir þetta frumkvæði. Þau komu til okkar og kynntu þessar hugmyndir og okkur þótti þetta mjög jákvætt. Við tókum í framhaldinu ákvörðun um að styðja sérstaklega við gerð þessarar vinnu.

Eins og hv. þingmaður hefur farið í gegnum þá eru þessi tvö ár, 2009 og 2014, borin saman þar sem annars vegar er verið að skoða almennan skort á lífsgæðum barna og hins vegar verulegan skort. Hvort tveggja er mælt með tólf atriðum af lista lífskjararannsóknarinnar. Þannig að hér er sem sagt greining á fyrirliggjandi gögnum. Það sem ég vil kannski aðeins fá að taka fram er að til að skilja og átta okkur á þessum viðmiðunarárum þarf að gera sér grein fyrir því að fyrra viðmiðunarárið, upphafsárið 2009, er litað af þeirri óvenjulegu stöðu sem þá var í efnahagslífi okkar. Þetta var í lok eins mesta góðæris sem hafði verið hér á Íslandi og um leið upphaf kreppunnar, þá var skorturinn lítill, en hann reis hins vegar í kjölfarið þegar áhrif kreppunnar komu fram. Það er það sem endurspeglast síðan í lífskjararannsókninni sem var birt 2014. Það ár var ákveðið, af löndum Evrópu í gegnum Eurostat, að keyra svokallaðan barna-modul sem var endurtekinn árið 2014. Á þetta hefur Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna bent, þ.e. að ástæða sé til að skoða hvort við ættum að keyra þessa greiningu oftar en Eurostat hefur lagt til. Við munum taka það upp við Hagstofuna og heyra ráðleggingar þeirra varðandi það hvort rétt sé að gera þetta oftar en gert er í Evrópu.

Þetta er líka nýr mælikvarði, tiltölulega nýr, skortur á efnislegum gæðum. Við höfum áður skoðað heimili undir lágtekjumörkum og við sjáum að á síðustu árum hefur þeim verið að fækka sem búa á heimilum undir lágtekjumörkum og líka sá hluti barna sem býr á heimilum sem eiga mjög erfitt með að ná endum saman, þannig að við erum að ná að vinna okkur út úr kreppunni.

Það endurspeglast ekki hvað síst í batnandi atvinnuástandi. Atvinnuleysi hefur til dæmis nú á milli ára lækkað um 1%. Við sjáum það í tölum Seðlabankans að heimilin hafa það mun betra og árið 2015 jókst kaupmáttur um tæplega 8%, sem er mjög óvanalegt.

Þessi skortgreining fer hins vegar nánar í gegnum gögnin og hjálpar okkur þar með að taka ákvarðanir um það hvernig best sé að koma til móts við þau börn sem þurfa mest á aðstoð okkar að halda. Ef við horfum aðeins á það sem er jákvætt þá hefur næring barna batnað. Það er líka áhugavert, og eitthvað sem ég held að við þurfum aðeins að velta fyrir okkur, að aðgangur að upplýsingum, aðgangur að internetinu og aðgangur að sjónvarpi, hefur líka batnað, en á sama tíma er það hins vegar sláandi að sjá hversu áberandi skorturinn er á húsnæðismarkaðnum. Það er líka í samræmi við skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika þar sem bent var á mikilvægi þess að huga sérstaklega að þeim sem eru á leigumarkaðum.

Það er líka rétt, sem þingmaðurinn nefndi hér, að allar okkar tölur benda til þess að þau heimili sem búa við skort, skort á efnahagslegum gæðum, og hafa það verst hér á Íslandi, eru líklegust til að vera á leigumarkaðnum. Þetta er yngra fólkið, það er mun hærra hlutfall. Um 4,4% þeirra sem eru 65 ára og eldri búa við skort á efnislegum gæðum, en 15,1% í heildina af þeim sem eru undir 65 ára. Þannig að það er þessi hópur sem þarf að huga sérstaklega að.

Hér var nefnt mikilvægi uppbyggingar á félagslegu húsnæði og ég vil svo sannarlega fá að taka undir það. Félagslegum íbúðum hefur lítið fjölgað. Biðlistar eru mjög langir hjá sveitarfélögunum sem eru í framlínunni við að sinna þeim sem hafa það allra verst á Íslandi, íbúðum hefur nánast ekkert fjölgað hjá sveitarfélögunum frá því eftir hrun og þeir fjármunir sem hafa verið veittir til þess, bæði á vegum þessarar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) og þeirrar síðustu, hafa jafnvel ekki verið nýttir til að fara í uppbyggingu hvað það varðar.

Hér var líka nefnt mikilvægi aukins húsnæðisstuðnings. Það er einmitt annað frumvarp sem er til þess að taka á því í meðferð velferðarnefndar. Að lokum vil ég nefna annað verkefni, þó að það sé minna og lægri upphæðir undir, (Forseti hringir.) sem er tilraunaverkefnið Tinna, sem við vorum að undirrita samning um við Reykjavíkurborg. Það snýr að því að hjálpa sérstaklega þeim foreldrum sem standa (Forseti hringir.) allra verst og börnunum þeirra. Vonandi getur það leitt til þess að þetta verði þjónusta sem verði viðvarandi.