145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

niðurstöður greiningar UNICEF á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

[12:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Fátækt er samfélagsmein. Afleiðingar þess að alast upp við fátækt geta haft víðtæk áhrif á börn og skert framtíðarmöguleika þeirra. Fram hefur komið í viðtölum við börn sem hafa búið við fátækt og skort á efnislegum gæðum að slíkt hefur mikil áhrif á andlega líðan þeirra og líf. Þau glíma við minnimáttarkennd, þá tilfinningu, og forðast gjarnan samveru við jafnaldra sína utan skóla þar sem þau telja sig geta átt á hættu að vera strítt vegna efnahagslegrar stöðu sinnar.

Þegar skortur barna er mældur er miðað við klæðnað, menntun, upplýsingar, húsnæði, afþreyingu og félagslíf. Í skýrslunni kemur fram að skortur er hjá um 9.000 börnum þegar kemur að húsnæði vegna mikils þröngbýlis, eins og komið hefur hér fram, en líka að ekki komi næg dagsbirta inn um glugga húsnæðisins. Mikill munur er á börnum leigjenda og börnum foreldra í eigin húsnæði. Börn leigjenda eru líklegri en önnur til að líða skort á öllum sviðum og hefur hann þrefaldast frá árinu 2009.

Þess vegna hef ég áhyggjur af því þegar félags- og húsnæðismálaráðherra telur að húsnæðisfrumvörp hennar, eins og þau eru lögð fram í dag, hjálpi til við að leysa þann vanda. Því miður sýnist mér svo að þau miði við litlar leiguíbúðir og þurfi ekki endilega að bjóða upp á næga dagsbirtu.

Annað í skýrslunni sem vekur ugg er þegar aðstæður barna eru þannig að þau geti ekki boðið félögum heim eða haldið upp á afmæli eða önnur tímamót í lífi sínu vegna fátæktar eða annars skorts. Við þurfum líka að fylgjast vel með því hvernig efnislegur skortur hjá ungu barnafólki þróast og sjá til þess að allar aðgerðir miði að mismunandi nálgun og feli í sér svigrúm til að þjónusta einstaklinga í mismunandi stöðu. „Ég hef rétt þó ég sé af lægri stétt“ sungu nemendur í Austurbæjarskóla árið 2014. Ég hvet fólk til þess að hlusta á þann boðskap á YouTube.

Því miður staðfestir skýrslan það sem lengi hefur verið vitað að börn tekjulágra og þeirra sem eru atvinnulausir eða í minna en 50% atvinnuhlutfalli eru til dæmis líklegri en önnur börn til að líða skort. „Fátæktin er erfið því hún stelur vonum og draumum“, sagði einn 12 ára drengur og það er í okkar verkahring að sjá til þess að engin börn á Íslandi líði skort.

Fátæk börn og börn (Forseti hringir.) sem líða skort geta ekki beðið eftir aðgerðum ríkisvaldsins og annarra þeirra sem koma að þessum málum. (Forseti hringir.) Það þarf að gyrða sig í brók og láta verkin tala.