145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

niðurstöður greiningar UNICEF á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

[12:05]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að hefja þessa umræðu.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur hér á landi árið 2013. Hann felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi og tryggir öllum börnum sérstaka vernd og umönnun. Til að öll börn fái notið réttinda sinna er nauðsynlegt að hafa vitneskju um hverjar ólíkar þarfir þeirra eru.

Eins og hér hefur komið fram líða um 9,1% barna á Íslandi efnislegan skort og skorturinn mælist mestur á sviði húsnæðis samkvæmt skortgreiningu UNICEF. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þeim fyrir að vinna þessa skýrslu og koma henni á framfæri til okkar.

Fyrir mig skiptir mestu máli að við höfum það eina markmið að ekkert barn á Íslandi búi við fátækt eða skort. Eitt barn er of mikið í því sambandi. Það er skylda okkar að enginn, ungur eða gamall, búi við skort. Þær mælingar sem við miðum við voru annars vegar gerðar í lok góðæris 2009 og síðan í lok kreppunnar 2014. Það er því ánægjulegt að sjá lækkandi tölu þeirra barna sem búa við fátækt og skort, en mikilvægt er að halda áfram að fylgjast með stöðunni.

Það er mikilvægt að minna á að fjögur frumvörp félagsmálaráðherra liggja fyrir þinginu og eru ekki síst sett fram til þess að koma til móts við þá sem lökust hafa kjörin. Stefnt er að því að byggja þúsundir íbúða á næstu árum til að mæta þeim óskum sem fram eru settar. Vinna við frumvörpin gengur vel þó að í mörg horn sé að líta og eðlilegt að nauðsynlegar breytingar verði gerðar sem almenn sátt ríkir um í velferðarnefnd.

Virðulegi forseti. Það er verkefni okkar á Alþingi að koma í veg fyrir að börn á Íslandi líði skort. En það gerist fyrst og fremst með því að efla atvinnuþátttöku þeirra foreldra sem hafa hæfileika og getu og búa við lökust kjör. Fjölbreytt og sterkt atvinnulíf er forsenda velferðar í landinu, ekki aðeins til þess að fjölga vel launuðum störfum heldur einnig til að standa undir þeirri velferð sem við krefjumst að börnin okkar öll búi við. (Forseti hringir.) Velferð á Íslandi mun aukast í takti við aukna verðmætasköpun í landinu og það verður lykillinn að farsælli framtíð allra barna á Íslandi.