145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

niðurstöður greiningar UNICEF á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

[12:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það var vont að hlusta á kynningu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á þeirri skýrslu sem hér er til umræðu. Þar koma viðmiðunarár út af fyrir sig ekkert við, auðvitað er vont að ástandið hefur versnað frá árinu 2009. Árið í ár, dagurinn í dag skiptir samt mestu máli og þess vegna verðum við að bregðast við núna. Við eigum að líta á tölurnar eins og þær eru í dag en ekki fara að spyrja um hvort viðmiðunarárin séu rétt, sýni þetta eða hitt. Nýjasta árið sýnir ástandið í dag og við þurfum að bregðast við því og við þurfum að gera það strax.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna benti á að gott væri að safna þessum upplýsingum oftar og nefndi að það mundi kannski kosta nokkrar milljónir að gera það. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er hún tilbúin að beita sér fyrir því að þessir peningar komi til að hægt sé að safna þessum upplýsingum oftar, einu sinni á ári eða kannski annað hvert ár?

Mig langar líka að nefna það sem kom mörgum á óvart, þ.e. að ung hjón með eitt barn flokkast undir einn af verst settu hópunum. Af hverju skyldi það vera? Skyldi það vera út af því að barnabætur hjóna byrja að skerðast mjög fljótt, fólk þarf að vera nánast með allra lægstu launin til að fá barnabætur? Þarf ekki að líta á barnabæturnar, ekki sem (Forseti hringir.) bætur heldur sem fjölskyldulaun fyrir ungt fólk sem er að eignast börn og hjálpa þá börnunum í þeim tilfellum?