145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

niðurstöður greiningar UNICEF á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

[12:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil líka þakka fyrir þessar umræður. Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum miklu oftar um þetta mál. Það sem truflar mig gríðarlega er að þetta eru ekki nýjar fréttir. Ég kíkti aðeins á gamlar fréttir á netinu um barnafátækt á Íslandi og þessar tölur hafa verið sláandi um langa hríð og farið hríðversnandi undanfarin ár. Það kemur fram að barnafátækt sé hreinlega brot á mannréttindum barna. En hver eru viðurlögin við því? Það er verið að brjóta ítrekað á mannréttindum, mannréttindum barna, en það eru engin viðurlög. Hversu margir einstaklingar eru á bak við þessar sláandi tölur? Hversu margir fullorðnir eru á bak við þessi 13,4% varðandi húsnæðismál?

Ég þekki hvernig það er að vera á leigumarkaðnum með barn eða börn og hversu mikið óöryggi það er að geta aldrei fengið að vera neins staðar lengur en kannski í eitt ár. Það er líka hluti af þessum skorti að hafa ekki það öryggi að vita hvar maður gengur í skóla sem barn af því að foreldrarnir þurfa alltaf að flytja. Núna er það aftur á móti orðið þannig að foreldrar barna hafa þurft að flytja heim til pabba og mömmu af því að það er neyðarástand á leigumarkaði. Svo kemur í ljós, hæstv. ráðherra, að það er sundrung á milli ríkisstjórnarflokkanna um lausn á húsnæðisvandamálunum, það er ekki stuðningur hjá mjög mörgum í Sjálfstæðisflokknum um hvernig eigi að leysa þetta neyðarástand. Ég ítreka því spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvað eigi að gera í millibilsástandinu. Hvað á að gera ef það miklar breytingar verða á þessum frumvörpum að þau taka ekki á þeim bráðavanda sem nú er í framtíðinni?