145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:39]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mér finnst þetta mjög áhugavert mál sem ekki náði fram að ganga á síðasta þingi en var mjög mikið rætt. Ég er ekki andsnúin því að það séu skilyrðingar af einhverju tagi vegna þess að ég held að með skilyrðingu sé á sama tíma verið að skylda sveitarfélög til þess að sinna einhverri þjónustu við þá sem á henni þurfa að halda. Mér finnst áhugaverður kaflinn í greinargerðinni um framkvæmdina annars staðar á Norðurlöndum þar sem menn hafa farið í skilyrðingar af ýmsu tagi og breytt verklaginu eftir því sem þurfa þykir.

Það er eitt sem ég velti fyrir mér, og ég skil að vissu leyti þær áhyggjur sem ræddar hafa verið varðandi þetta mál, þ.e. að sveitarfélögin séu svo misvel í stakk búin til að takast á við það verkefni að aðstoða þá sem eru hæfir til þess að vera á vinnumarkaði og gera þá að virkum þátttakendum. Við erum með risastór sveitarfélög eins og hér á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík, og svo allt niður í mjög lítil sveitarfélög. Það óþægilega við þetta er að hvert sveitarfélag getur þá væntanlega verið með sínar útfærslur. Það er ekki jafnræði. Ég velti fyrir mér hvort þetta ætti að vera meira á herðum ríkisins. Þetta eru einstaklingar þó að þeir búi í sveitarfélögum. Af hverju ætti ríkið þá ekki að koma að þessu með einhverjum hætti? Er það fólk sem fer af atvinnleysisbótum algjörlega á framfæri sveitarfélaganna? Mér finnst það ekki endilega þurfa að vera þannig.