145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:48]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það mun nú kveða við svolítinn annan tón í ræðu þeirri sem hér verður flutt miðað við þær þrjár ræður sem fram að þessu hafa verið fluttar um þetta mál og kannski fyrst og síðast vegna þess að sú sem hér stendur telur að það gæti orðið þeim til góðs sem hér eiga hlut að máli þegar fram líða stundir að virkniúrræði séu skilyrði fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga.

Í fyrst lagi segir í 1. gr. að ráðherra gefi árlega út leiðbeiningar til sveitarstjórna í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd fjárhagsaðstoðar auk viðmiðunarfjárhæðar. Það tel ég afar mikilvægt að komi hér inn og sé í frumvarpinu vegna þess að þó að ekki sé hægt að segja að öllum sveitarfélögum beri að veita einhverja ákveðna upphæð er engu að síður fólgin í þessu ákveðið skilyrði af hálfu löggjafans gagnvart sveitarfélögum vegna þess að hæstv. ráðherra, hver svo sem hann er hverju sinni, mun væntanlega taka mið af því við leiðbeinandi aðgerðir til handa sveitarfélögum að þar séu fjárhæðir þess eðlis að fólk sem á aðstoð þarf að halda geti með einhverjum hætti framfleytt sér. Ég held því að það sé af hinu góða. Það er svo sem nefnt í fleiri frumvörpum sem fram hafa komið og munu koma fram.

Síðan kemur að 2. gr. sem er skilyrðing fyrir veitingu fjárhagsaðstoðar. Ég ítreka það hér, virðulegur forseti, að verið er að tala um einstaklinga sem eru vinnufærir, eingöngu um einstaklinga sem teljast vinnufærir, ekki um þá sem í dag eða í náinni framtíð þurfa á aðstoð sveitarfélaga að halda og eru ekki vinnufærir. Þetta nær eingöngu til vinnufærra einstaklinga.

Þá þykir mér sérkennilegt að rætt sé um að frumvarpið feli í sér refsingu fyrir fólk. Þvert á móti felur frumvarpið í sér hvatningu til úrræða fyrir einstaklinga til þess að leita sér að vinnu og að það er skilyrt að maður getur ekki verið lengi með fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi án þess að leita sér að virkniúrræðum, uppfylli maður þau skilyrði sem hér eru sett. Í mínum huga hlýtur það alltaf að vera grundvallaratriði fyrir hvern og einn að geta verið virkur í samfélagi sínu með einum eða öðrum hætti, að vera ekki óvirkur aðili sem hvergi tekur þátt einhverra hluta vegna. Þess vegna er afar mikilvægt að mínu mati gagnvart fólki sem telst vinnufært að hvetja það áfram og ef skilyrða þarf aðstoð við það er mikilvægt að virkni sé fyrir hendi.

Af því færst hefur í vöxt að ungt fólk sæki til sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar vil ég sérstaklega minna á orð Bjarkar Vilhelmsdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa, gagnvart þessu unga fólki. Hún sagði að þar hefðum við, samfélagið, brugðist því unga fólki sem fengi fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögunum vegna þess að okkur hefði mistekist að virkja það til að finna sér vinnu og veita því aðstoð við að leita sér að vinnu. Þetta er jafnvel ungt fólk sem á engan rétt á atvinnuleysisbótum og einhverra hluta vegna leitar það til sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Björk segir að okkur hafi mistekist að veita þessu unga fólki virkniúrræði til að gera það að virkum þjóðfélagsþegnum. Í umfjöllun um frumvarpið er sérstaklega rætt um að í Svíþjóð upp úr 1990 hafi menn farið að gera þessa kröfu og að henni hafi sérstaklega verið beint að vinnumarkaðsúrræðum fyrir atvinnulaus ungmenni undir 20 ára aldri, það hafi verið flutt til sveitarfélaganna 1995 og árið 1998 var aldurshópnum 20–24 ára bætt við.

Það getur ekki undir nokkrum kringumstæðum verið eðlilegt að ungt fólk á aldrinum 18–25 ára sé bundið fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Það hlýtur að þurfa að skoða þann þátt mjög gaumgæfilega og aðstoða það unga fólk til virkni, hvort heldur er í námi, á skólagöngu eða við atvinnuleit o.s.frv. Að því leyti finnst mér að frekar megi horfa til orðanna „hvatning og virkni“ en verið sé að refsa þeim sem minnst mega sín með því að hvetja og virkja þá til atvinnuleitar.

Hins vegar er það nú einu sinni þannig að hinn almenni markaður er miklu fúsari til að taka við fólki í hlutastörfum, en opinberi geirinn er alveg eins og eldgamall þurs. Hann hefur yfirleitt bara fólk í fullu starfi og svo í vaktavinnu þar að auki. Ef það er einhver sem á að taka sig á í því að veita úrræði til handa þeim sem eru í atvinnuleit eru það meðal annars sveitarfélögin, sem geta þá með einhverjum hætti fundið fólki hlutastörf til þess að koma því út á vinnumarkaðinn og virkja það til þess að fara út á meðal fólks og taka þátt.

Ég held að segja megi um frumvarpið að það sé hvati fyrir sveitarfélögin til þess að velta fyrir sér þjónustu við íbúana og með hvaða hætti þau geta sjálf breytt fyrirkomulaginu varðandi starfsumsóknir og starfshlutfall til þess að virkja fólk til vinnu þannig að það þurfi ekki lengur fjárhagsaðstoð. Það tvennt gæti farið saman hjá sveitarfélögum. Það ætti í raun að beina sveitarfélögum inn á þá braut og sýna þeim með hvaða hætti þau geta sjálf með einum eða öðrum hætti aðstoðað fólk í virkri atvinnuleit í stað þess að færa ábyrgðina varðandi atvinnu alltaf á almenna markaðinn og kalla eftir úrræðum af hans hálfu á meðan hið opinbera sinnir ekki sínu.

Það er klárlega betra fyrir alla nærþjónustu í sama sveitarfélaginu að færa fólki hlutastarf, hvort heldur er í skólum, á bókasöfnum eða í þeim íþróttahúsum, sundlaugum og á þeim vinnustöðum sem sveitarfélögin hafa yfir að ráða, og borga því þar laun og hveta það til virkni frekar en að fara hina leiðina, að láta það fá fjárhagsaðstoð. Í mínum huga felast í frumvarpinu tækifæri fyrir sveitarfélög miklu frekar en ógnir, og hitt sem skiptir meira máli; í frumvarpinu felast tækifæri og hvatning til virkni fyrir þá sem eru vinnufærir og njóta fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga. Ég þekki það úr fyrri störfum mínum að það er oft þannig að oft nægir að sýna þeim umhyggju sem á henni þurfa að halda og leiðbeiningar til þess að fara á nýjan leik út í samfélagið. Félagsþjónusta sveitarfélaga gerir það hægt og bítandi með samtölum við einstaklinga og leiðbeinir þeim í hvaða átt þeir geti farið. Þá eru einstaklingarnir betur settir en heima fyrir og fá inn á reikning sinn einhverja upphæð þó að hún sé í flestum tilvikum lág. Fæstir geti lifað mannsæmandi lífi af þeirri aðstoð, það held ég að öllum sé ljóst.

Það er eitt í þessu sem kemur ítrekað upp í huga minn. Í frumvarpinu stendur að framfærslan eða skerðing á framfærslu muni aldrei ná til barna. Ég held að það hljóti að fara að verða tímabært að skoða öll þau lög sem tengjast börnum, barnabótum, barnalífeyri, framfærslu vegna barna, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og alla þá þætti varðandi barnalífeyri. Ef við tökum einstæða móður með tvö börn eða einstæðan föður með tvö börn, við verðum að hafa það þannig vegna þess að það er oftar talað um hitt kynið. Tökum dæmi um einstæðan föður með tvö börn sem er öryrki og fær barnabætur frá ríkinu. Það gerir líka einstæði faðirinn sem er í fullri vinnu. Hann er til dæmis kennari með tvö börn. Hann fær líka barnabætur frá ríkinu. Öryrkinn fær barnalífeyri sem er skattfrjáls, en einstæði faðirinn, sem er í fullri vinnu, fær það ekki. Öryrkinn, sem er einstæður faðir með tvö börn, fær því barnabætur og barnalífeyri en hinn ekki. Ég held líka að við þurfum að fara að horfast í augu við og ræða að það kostar að eiga barn. Það kostar alveg jafn mikið þó að maður sér einn eða þó að það séu tveir foreldrar.

Samhliða þessu höfum við rætt um fátækt barna og fram kom að sum börn geta ekki tekið þátt í hinum og þessum íþróttum eða félagsstarfi, geta ekki leyft vinum og kunningjum að koma heim með sér vegna þess að foreldrarnir eru fátækir. Við þurfum að horfa til þess að breyta þessu kerfi og velta því fyrir okkur hvað það þýðir að eignast barn og hvað á það barn að hafa fyrir frumþarfir sínar.

Virðulegur forseti. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra mælir væntanlega og vonandi fyrir nýju frumvarpi nú á vordögum um breytingar á almannatryggingakerfinu. Það gengur meðal annars út á að horfa til starfsgetu fólks frekar en örorku og horfa þá til þeirra þátta heildrænt, hvort heldur er hjá öryrkjum eða eldri borgurum. Þá kemur kannski í ljós að það er betra að horfa frekar til þess sem maður getur gert en þess sem maður getur ekki gert, alla vega fyrir þá sem hér um ræðir, virðulegur forseti.