145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að byrja á að segja að ég held að við, a.m.k. ég og hv. þingmaður og ég held við flest sem hér erum inni, séum alveg sammála um að það sé mikilvægt að fólk sé virkt í samfélaginu. Ég held að um það sé enginn ágreiningur. Ágreiningurinn snýst um það hvort skerða megi bæturnar hjá fólki sem uppfyllir ekki tiltekin skilyrði sem eru sett fram í þessu frumvarpi. Þar liggur ágreiningurinn að því er ég tel en ekki í því sem kemur að virkni. Mig langaði að segja það til að byrja með.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að hér sé eingöngu verið að tala um að setja skilyrðingar á þá sem hafa fulla vinnufærni. Í frumvarpinu segir að leiði mat á vinnufærni í ljós að umsækjandi sé vinnufær að hluta eða öllu leyti eigi að vinna með honum áætlun um atvinnuleit. Þingmaðurinn kom einnig inn á það í ræðu sinni að við erum að færa okkur í þá átt að horfa frekar til starfsgetu fólks en vangetu. Ég hef áhyggjur af því samspili. Segjum að við tökum upp starfsgetumat og fólk sé hvatt í vinnu en fólk með skerta starfsgetu fái hins vegar ekki alltaf vinnu og við setjum með þessu frumvarpi það fólk í það að vera alltaf í virkri starfsleit (Forseti hringir.) því að annars megi skerða aðstoðina til þess, erum við þá ekki að setja fólk í klemmu á milli tveggja kerfa? Hefur hv. þingmaður hugsað þetta samspil tveggja ólíkra kerfa til enda?