145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:04]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er talað um þá sem hafa hugsanlega verið á atvinnuleysisbótum, misst atvinnuleysisbætur og farið inn til fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga. Það er líka talað um þá sem aldrei hafa unnið og eru háðir á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Jú, maðurinn sjálfur misbeitir oft valdi sínu. Við getum alveg óttast að sveitarfélögin gangi að einstaklingi sem er með starfsgetu upp á einn fjórða eða hvert svo sem hlutfallið er. Þá kemur hin spurningin: Af hverju er fullvinnufær einstaklingur ekki í vinnu? Af hverju er viðkomandi að leita fjárhagsaðstoðar sveitarfélags ef hann er fullfær um að vinna? Hvað gerir það að verkum að slíkur einstaklingur er ekki á vinnumarkaði? Fær hann ekki vinnu? Eða fær hann ekki vinnuna sem hann vill?

Jú, ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að einhvers staðar gætu verið starfandi félög sem horfa til þess. Ég tel þá að nefndin þurfi með einhverjum hætti að velta fyrir sér hvort þarna eigi að standa að annaðhvort sé viðkomandi vinnufær eða ekki. Starfsgeta og örorka, við erum ekki endilega að tala um að öryrkjar séu hér inni. Þeir geta verið hér inni vegna þess að bætur þeirra fullnægja ekki því sem þarf. Mér finnst að nefndin þurfi einfaldlega að skoða það vegna þess að hugsanlega getur fólk lent á milli kerfa eða verið ýtt út í eitthvað sem það (Forseti hringir.) er engan veginn fært um.