145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns, nei, ég held ekki að það eigi að vera fastar tölur vegna þess að aðstæður geta verið öðruvísi á Akureyri og Raufarhöfn þó að þeir bæir séu í sama kjördæmi en aðstæður ólíkar fyrir fólk sem þar býr. Það er misdýrt að búa, hvort sem það er hér eða þar, það er ekki alltaf sami kostnaður í búsetu.

Hvað varðaði hitt sem við spjölluðum um, starfsgetu og örorku, er ég bæði þeirrar gerðar og þeirrar trúar að starfsmenn félagsþjónustu sveitarfélaga muni aldrei vísa þeim umbjóðendum sínum sem verst eru staddir og mest þurfa á að halda í úrræði sem þetta. Ég vil aftur nefna ágæta konu sem starfaði lengi við og þekkir vel félagsþjónustukerfið, Björk Vilhelmsdóttur. Hún talaði um að við sem samfélag hefðum brugðist ákveðnum hópi fólks, unga fólkinu, í því að hefja ekki virka atvinnuleit með því, fyrir það og skilyrða að það væri á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til þess að koma því áfram út í samfélagið. Þá skipti engu máli hvort þar væri um að ræða, eins og hefur komið í ljós, að margir væru andlega veikir og hefðu sig ekki inn. Það hefur hins vegar líka sýnt sig eins og hjá Geðhjálp og mörgum öðrum að þegar maður tekur akkúrat fólk sem þjáist af slíku og fer með það áfram inn í einhverja virkni opnast heimur sem áður var því hulinn. Ég hef trú á því að það að virkja fólk, þó að það séu peningaleg skilyrði hérna megin, muni skila meiri árangri en ef ekki er reynt að virkja þann einstakling. Ég tek undir með (Forseti hringir.) hv. þingmanni, við erum kannski flest sammála því að virkja fólk til þátttöku frekar en að letja það.