145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:20]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir spurningarnar sem hún beindi til mín. Ég taldi réttara að koma bara í andsvar við hv. þingmann.

Þar nefndi hún að hún teldi að ég hefði ekki svarað spurningu sem beint var til mín í fyrri hluta umræðunnar þegar ég mælti fyrst fyrir málinu. Ég tel hins vegar að ég hafi einmitt svarað spurningunni. Það er hins vegar spurning hvort ég hafi svarað henni eins og hv. þingmaður hefði viljað að ég hefði svarað henni. Ég benti á að í frumvarpinu væri einmitt verið að tryggja og taka fyrir að sveitarfélög gætu skert þann stuðning sem á að koma til vegna barna.

Miðað við núverandi fyrirkomulag og í ljósi þess að verið hefur ákveðin lagaóvissa varðandi þær skilyrðingar sem sveitarfélögin hafa beitt, ég held að nánast hvert einasta sveitarfélag sé með einhvers konar reglur, taldi ég mjög mikilvægt að það væri algjörlega á hreinu að þær reglur bitnuðu ekki á börnunum, og við tökum það fram. Það er þá mikilvægt verkefni fyrir velferðarnefnd ef skerpa þarf enn frekar á því.

Hv. þingmaður fór í gegnum ákveðin atriði sem hún taldi að mundu draga úr stuðningi við þá sem minnst hafa. Eins og kemur kannski ekki á óvart er ég ekki sammála því. Ég tel einmitt að miðað við þær tölur sem komið hafa fram þá hafi aðgerðir okkar, ekki hvað síst sem snúa að því að efla atvinnulífið, gert það að verkum að jöfnuður hefur verið að aukast. Við höfum séð að dregið hefur úr fjölda þeirra sem búa við fátæktarmörk, þannig að þó að það sé sláandi að sjá áhrif kreppunnar voru þær aðgerðir sem bæði þessi ríkisstjórn og sú síðasta ríkisstjórn gripu til hugsaðar til þess að draga úr áhrifum hennar. (OH: Hvað með áhrif þessarar ríkisstjórnar?)

Síðan varðandi það sem snýr að skerðingum barnabótanna sem hv. þingmaður nefndi hér, er hugsunin sú að tryggja að þeir sem minnst hafa á milli handanna fái aukinn stuðning. Það eru sömu áherslurnar og við höfum lýst yfir í samskiptum (Forseti hringir.) við aðila vinnumarkaðarins varðandi það sem snýr að vaxtabótunum, að stuðningurinn fari þá í auknum mæli til þeirra sem minnst hafa á milli handanna.