145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:25]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil taka fram. Það virðist vera ákveðinn misskilningur í gangi. Hér er um að ræða heimildarákvæði fyrir sveitarfélögin. Ég hef eilitlar áhyggjur af þeim tóni sem ég heyri í umræðunni og viðhorfi gagnvart sveitarfélögunum. Hv. þingmaður er sjálf reyndur sveitarstjórnarmaður og við höfum séð að sveitarstjórnarmenn hafa lagt aukna áherslu á stuðning við fjölskyldur. Þeir hafa reynt að sinna verkefnum sínum vel og lagt sig mikið fram um að huga betur að þessum hópum.

Ég get ekki séð að þó að Alþingi sé að reyna að setja skýrari reglur og takmarka möguleika sveitarfélaga til þess að skilyrða fjárhagsaðstoð, einmitt að huga að börnunum, að við eigum að ræða með þessum hætti um sveitarfélögin. Til dæmis hafa sveitarfélög á því svæði sem hv. þingmaður er fulltrúi fyrir verið að beita skilyrðingum og hafa reynt að vanda sig við það. Ég veit að líka að samflokksmenn hennar í öðrum kjördæmum hafa verið að beita skilyrðingum og talið að þær hafi skilað miklum árangri til þess að hjálpa fólki.

Varðandi það sem við ræðum hér þá þurfum við að tryggja að viðkomandi séu raunverulega vinnufærir, að það sé ekki þannig að menn geti hugsanlega beitt þessum reglum gagnvart þeim sem ekki eru vinnufærir og eins að tryggja að hugað sé að börnunum.

En ég ítreka það sem ég sagði, aðgerðir þessarar ríkisstjórnar, og líka aðgerðir síðustu ríkisstjórnar, að ég tel, hafa einmitt (SII: Hvaða aðgerðir?) miðað að því að styðja við fjölskyldurnar. (SII: Hvaða aðgerðir?)Við sjáum það á tölum frá Hagstofunni sem snýr að félagsvísunum að það dregur (SII: Dæmi um aðgerðir?) úr fátækt á Íslandi. Þar er náttúrlega lykilatriðið enn á ný að atvinnulífið taki við sér, að fólk hafi vinnu. Þeim hefur fækkað sem fá fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögunum og það eru færri sem eru á (Forseti hringir.) atvinnuleysisbótum.

Því til viðbótar vil ég benda á að hv. þingmaður átti aðild að ríkisstjórn sem lagði í tvígang fram frumvarp sem var samhljóða þessu.