145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og félagsþjónustu sveitarfélaga. Það hefur margt fróðlegt komið fram í umræðunni og mismunandi sjónarmið gagnvart framfærsluskyldu ríkisins sem er yfirfærð á sveitarfélögin og mikil er ábyrgð sveitarfélaganna í málinu. Ég vil segja það í upphafi að ég er ekki endilega að skrifa upp á það að þessi mál eins og þau eru í dag séu í góðu lagi, langt í frá og það hefði fyrir löngu þurft að taka þau til endurskoðunar. En mér hugnast ekki sú niðurstaða sem kemur fram í þessu frumvarpi þar sem verið er að skilyrða fjárhagsaðstoðina á þennan hátt, að menn falli út af bótum og þær geti verið skertar um helming í tvo mánuði og menn geti misst fjárhagsaðstoð í sex mánuði. Mér finnst það grafalvarlegt mál og mikil breyting frá því sem nú er og ekki gott innlegg í þá umræðu að við þurfum að styðja við þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu hverju sinni.

Mér þætti gott að heyra frá hæstv. ráðherra hvað það er nákvæmlega sem þessi ríkisstjórn hefur verið að gera á kjörtímabilinu til að auka virkniúrræði fyrir þá hópa sem hafa oft verið nefndir, sem lenda á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og festist þar, ungt fólk á aldrinum 18–25 ára. Hvað hefur ríkisstjórnin verið að gera fyrir þá hópa frá því að hún tók við? Við þekkjum vel þær aðgerðir sem farið var í fyrir þessa hópa á síðasta kjörtímabili án þess að verið væri að setja upp refsiramma gagnvart því fólki sem er komið á þá endastöð að þurfa að þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Við þekkjum Nám er vinnandi vegur þar sem fólk á atvinnuleysisbótum gat farið í nám og haldið bótum og ýmis önnur úrræði sem farið var í, sem skiluðu miklum árangri.

Ég kannast ekki við þau úrræði sem þessi ríkisstjórn á að hafa gripið til fyrir þá sem veikast standa hverju sinni og mér finnst ábyrgðarhlutur að tala eins og það hafi verið gert. Við þekkjum það hjá núverandi ríkisstjórn að hún hefur skorið niður barnabætur og vaxtabætur og lækkað skatta á þá tekjuhæstu, en ekki komið til móts við þá tekjuminni á sama hátt. Allt sem gert hefur verið hefur virðist mér fyrst og fremst vera til að auka ójöfnuð.

Hvað varðar þá skilyrðingu að hægt sé að svipta þá sem teljast vinnufærir fjárhagsaðstoð ef þeir fara ekki á þau virkniúrræði sem viðkomandi sveitarfélag býður upp á þá spyr ég: Hver er nákvæmlega til þess fallinn að meta hvort viðkomandi er vinnufær? Mér finnst það ekki koma fram hér. Við vitum að það geta verið svo ótalmargir þættir sem hafa áhrif á það hvort viðkomandi telst vinnufær eða óvinnufær.

Öll stoðþjónusta sveitarfélaga gagnvart þessum hópum þarf að vera mjög öflug, hvort sem það er sálfræðiþjónusta, geðhjálp eða ýmis virkniúrræði til þess að fara í nám og annað, en mér finnst þetta allt eiga að vera ókeypis og undir jákvæðum formerkjum, ekki í formi refsingar. Ég held að menn þekki almennt að það er erfitt að berja fólk til hlýðni. Það virkar yfirleitt ekki, hvort sem er í uppeldi, kennslu eða öðru, að setja dæmið þannig upp að hóta því að einstaklingur missi þetta eða hitt ef hann gegni ekki og geri ekki það sem viðkomandi vill að hann geri. Það er miklu heilbrigðara og eðlilegra að vinna undir jákvæðum formerkjum með því fólki sem er komið á þann stað að þurfa að taka það þrautarskref að sækja um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafa frekar hvata í kerfinu sem ýta undir það að fólk reyni að sækja sér og nýta þau vinnumarkaðsúrræði og virkniúrræði sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða. Hitt getur snúist í höndunum á fólki. Ef við hugsum um þessa einstaklinga fyrst og fremst, sem ég held að sé meiningin hjá okkur öllum, þá eigum við auðvitað að vinna með fólki, með virkniúrræðum og öllu því sem við getum í þeim efnum, en ekki stilla því upp við vegg. Það getur valdið miklu andlegu álagi hjá fólki sem er komið á þann stað að standa frammi fyrir því að ef það fer út af beinu brautinni missir það fjárhagsaðstoð, sem er ekki há upphæð og ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Maður spyr sig líka hvort ekki hefði verið réttara að horfa til þess að samræma fjárhagsaðstoð, að skilyrða eitthvert gólf svo að fólk, hvar sem það býr á landinu, geti treyst því að það sé sambærileg aðstoð í boði, sambærileg úrræði. Mér finnst það vera mannréttindi sem sveitarfélögin þurfa að tryggja. Í dag getur fjárhagsaðstoðin verið mjög mismunandi, eins og ég skil það. Mér finnst að það hefðu átt að koma skýrar reglur eða það sett skýrt fram svo að það sé þannig samkvæmt lögum að ekkert sveitarfélag fari undir ákveðna upphæð þar sem horft er til framfærsluviðmiða velferðarráðuneytisins. Eins og ég skil þetta er það allt á floti enn þá og sveitarfélögin eru ekki bundin af því að bjóða upp á sambærilega fjárhagsaðstoð.

Það hefur verið talað um börnin. Þau eru stór þáttur í þessu öllu. Við verðum að horfa til þeirra. Það er grafalvarlegt hversu mörg börn á Íslandi búa við efnahagslegt óöryggi og ef það er ekki akkúrat þessi hópur fólks, sem þarf að leita eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og á börn, sem virkilega þarf á stuðningi að halda þá veit ég ekki hvað. Við sem þjóðfélag eigum koma í veg fyrir fátæktargildrur og varanlega fátækt barna. Það er talað um að sú fjárhagsaðstoð sem bundin er við börn skerðist ekki þótt foreldrið standið frammi fyrir því að missa fjárhagsaðstoðina eða missa helming hennar í tvo mánuði eða missa hana í allt að sex mánuði. En hvernig spilar það saman, upphæðin sem fylgir hverju barni, sem ég veit ekki hver er nákvæmlega, ef hin upphæðin hverfur? Hvernig í ósköpunum á þá viðkomandi foreldri að geta séð fyrir sér og barninu sínu, þótt einhverjar lágar fjárhæðir fylgi barninu? Ég sé ekki hvernig þetta á að spila saman. Og hvert ætlum við að vísa þessu? Vandi þessa fólk hverfur ekki, hann gufar ekki upp, ekki frekar en þegar atvinnuleysisbótatímabilið var stytt, það var ekki eins og atvinnulausum fækkaði sjálfkrafa en það var látið eins og atvinnuleysi viðkomandi fólks mundi hverfa og allt yrði í góðu lagi hjá því. Vandinn er áfram til staðar hjá því fólki sem sveitarfélögin hafa heimild til að setja út af fjárhagsaðstoð. Hvert viljum við sjá að það fólk leita? Hvert á það að leita? Erum við að vísa þessu fólki út á guð og gaddinn eða treystum við á (Gripið fram í: Fjölskylduhjálpin.) félagsaðstoð frjálsra félagasamtaka, Mæðrastyrksnefndina, Fjölskylduhjálpina, kirkjuna? Ætlum við að gefa þess fólki vink um að það hljóti að vera einhverjir þarna úti sem taki við því og af miskunnsemi aumki sig yfir það, af því að við sem ríkt samfélag, ríki og sveitarfélög, erum aðeins með refsiramma og reglur og ef fólk passar ekki inn í þann ramma verður það bara að bjarga sér einhvern veginn?

Mér finnst þetta vond skilaboð og ekki í samræmi við það velferðarsamfélag sem við viljum byggja hér upp. Ég held að allir sammála séu um að það þarf að gera allt sem hægt er til að auka virkni og bjóða upp á fjölbreyttar leiðir til þess að koma fólki aftur á betri stað, svo að það geti séð sjálfu sér og fjölskyldu sinni farborða, en það er ekki sama hvernig er unnið með það erfiða verkefni. Starfsmenn sveitarfélaga, sem heilt yfir eru fólk sem hefur unnið góða vinnu og vill vel, þurfa að sjá að það séu úrræði til staðar sem hægt er að bjóða upp á. En það sem mér finnst þessi ríkisstjórn ekki svara er hvaða úrræði verið er að bjóða upp á. Kosta þau? Hvað kosta þau úrræði? Það þarf allt að liggja fyrir. Það er alveg hægt að virkja einstaklinga án þess að skilyrða það með þeirri svipu að þá fái þeir ekki mat næsta hálfa mánuðinn eða muni ekki eiga fyrir mat eða fatnaði.

Þegar fólk er komið á þennan stað hefur aðdragandinn oft verið erfiður og fólk ekki í andlegu jafnvægi og á mjög erfitt að reyna að halda utan um fjölskyldu sína og halda haus. Þá er ekki á það bætandi að vera undir þeirri miklu pressu að geta verið sviptur fjárhagslegri framfærslu ef menn stíga ekki alveg réttu skrefin og hafa kannski ekki orku í að fara eftir öllum þeim virkniúrræðunum sem eru í boði.

Eins og var sagt áðan þurfa bæði sveitarfélög og almenni vinnumarkaðurinn að taka sér tak í því að opna vinnumarkaðinn fyrir fólki sem hefur skerta starfsgetu, hefur fallið út af vinnumarkaði, svo það hafi möguleika á að koma aftur inn með reisn og hafi tækifæri til þess að byggja upp sjálfstraust sitt og mennta sig. Við eigum auðvitað að setja fjármagn í þá þætti. Þessi ríkisstjórn hefur hins vegar unnið gegn því að ungt fólk, ég segi ungt fólk, 25 ára og eldri, geti aflað sér menntunar. Við þekkjum það. Það er hluti af þessu öllu. Svo getur hæstv. félagsmálaráðherra talað um að þessi ríkisstjórn hafi gert margt gott (Forseti hringir.) í þessum málum. Það sér ekki fyrir endann á neinu og ekki heldur hvað kemur út úr þessum húsnæðispakka.