145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu og sérstaklega það að hún dró upp myndina af því og spurði spurninga um hvað yrði um það fólk sem yrði fyrir skerðingum á fjárhagsaðstoð. Ég kem hingað upp til að spyrja hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur einmitt út í frumvarpið. Þetta er frumvarp sem kveður á um að við ætlum að fara að veikja síðasta öryggisnetið til framfærslu í samfélaginu og við ætlum að setja fólk í einhvers konar próf og ef það þóknast ekki yfirvaldinu í sveitarfélaginu þá er því ýtt enn lengra út á jaðarinn.

Í frumvarpinu, sem er algjörlega á skjön við anda laganna um félagsþjónustu sveitarfélaga, er ekki gerð nokkur tilraun til að greina stöðuna varðandi þá sem eru á fjárhagsaðstoð. Ég veit að Reykjavíkurborg á mjög góðar upplýsingar. Ég geri ráð fyrir að flestöll sveitarfélög eigi ágætisgreiningu, en ekkert er komið inn á hvað fólk er að meðaltali lengi á fjárhagsaðstoð, hversu margir eru taldir í langvarandi vanda sem þurfi að bregðast við. Það er engin tölfræðileg úttekt, hvað þá heldur á því viðfangsefni sem er til umræðu í frumvarpinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað hún segi um vinnubrögð af þessu tagi.