145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nefnilega góður punktur og í raun og veru kjarninn í þessu máli, að alla greinargerð skortir til að byggja á og hafa yfirsýn yfir hver vandinn er í rauninni. Við vitum að þetta er fjölbreyttur hópur með mismunandi þarfir og mismunandi vandamál. Auðvitað hefði átt að liggja fyrir góð greining á því hvaða hópar ílengjast þarna fyrst og fremst og hvað væri hægt að gera til að mæta sérstaklega þeim hópum sem eru þar til lengri tíma. Menn hafa verið með þumalputtareglu með það og eflaust liggja fyrir betri greiningar, eins og hér í höfuðborginni, á því hvaða hópur það er fyrst og fremst. Nefnt hefur verið að það sé hópurinn 18 til 25 ára. Slíkar greiningar þyrftu auðvitað að liggja fyrir vítt og breitt um landið, það þarf ekki að vera að þetta sé eitthvað samsvarandi. En þegar slíkar greiningar mundu liggja fyrir þá ynnu menn markvisst að því að smíða úrræði sem yrðu til þess að auðvelda því fólki að geta komist aftur í vinnu, þ.e. þeir sem hafa vinnufærni, og leggja fjármagn í þær aðgerðir. Mér finnst svo oft menn setja á blað alls konar texta út og suður sem þeir talað í kringum, fara í kringum hlutina eins og köttur í kringum heitan graut. En svo vilja menn ekkert leggja neina peninga í slíkar (Forseti hringir.) aðgerðir. Þá er bara lok, lok og læs.