145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég skil hana þannig að í raun sé hún sammála mér í því að það sé skiljanlegt að sveitarfélög kalli eftir skýrari umgjörð um fjárhagsaðstoð og að í rauninni vanti sveitarfélög fyrst og fremst úrræði til að vísa fólki í til að aðstoða það við að rétta úr kútnum, styðja það og aðstoða við að komast út úr stöðu sem enginn vill vera í. Það vill enginn vera í þeirri stöðu að þurfa að banka upp á hjá sveitarfélaginu og biðja um aðstoð.

Er ekki frumvarpið samt mjög í takt við það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera að öðru leyti? Það er búið að stytta atvinnuleysistímabilið. Húsaleigubætur hafa ekki hækkað allt kjörtímabilið þó að vitað sé að þeir sem eru í verstri stöðu eru einmitt leigjendur. Þar er okkar fátækasta fólk og börnin sem búa við mestan skort eru einmitt í þannig stöðu.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt úr þessum ræðustól að hann telji mikilvægt að kjör öryrkja séu verri en þeirra sem eru á lægstu launum vegna þess að þar á meðal séu ungir menn sem þurfa að vera á lægri bótum. Auðvitað orðaði hæstv. ráðherra það ekki þannig að það þyrfti að svelta þá út úr þeirri stöðu sem þeir eru í, en það mátti skilja hann þannig. Er hv. þingmaður ekki sammála því að í sama anda (Forseti hringir.) sé einmitt þetta frumvarp?