145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hlutskipti barna í þessu öllu saman er auðvitað stór þáttur eins og hv. þingmaður kemur inn á. Hvert verður hlutskipti þeirra þegar á að refsa foreldrunum og þrengja hag þeirra, hvernig eiga þau að lifa það af, saklaus börnin sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér? Það er talað um að ekki eigi að skerða einhverja sérstaka barnaframfærslu. Hvað er hún há hlutfallslega miðað við þá framfærslu sem er í boði hjá sveitarfélögunum? Það veit ég ekki upp á krónu, en hún dugar skammt. Ég held að okkur renni öllum kalt vatn milli skinns og hörunds við tilhugsunina um barn sem horfir upp á foreldri sitt í þeirri erfiðu aðstöðu að hafa í raun og veru enga framfærslu í hálft ár. Það er ömurleg tilhugsun. Það fólk sem er á þessum stað er oftar en ekki í félagslegu húsnæði sveitarfélagsins. Hvernig á það að rísa undir leigunni? Skyldur sveitarfélagsins eins og ég skil þær eru að fólki sé ekki hent út á götuna. Í hvaða vítahring er fólk komið og hverjum er það til góða og gagns? Er það til einhvers gagns þegar á að vinna með fólki, byggja það upp og gera hlutina þannig að fólk sjái til sólar aftur þegar það hefur lent í þessari erfiðu aðstöðu?

Ég held að við þurfum að greina þessi mál miklu betur og leggja það upp að vinna með jákvæðum formerkjum með því fólki sem þarf tímabundið á aðstoð samfélagsins að halda. (Forseti hringir.) Við vitum aldrei hver verður næstur.