145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Við deilum þeirri grundvallarafstöðu að þetta mál sé afar vont og til mikillar óþurftar í íslenskri löggjöf. Mig langar að spyrja hv. þingmann og formann velferðarnefndar, sem fékk nánast alveg samhljóða mál til umfjöllunar á síðasta þingi, um tvennt í fyrra andsvari mínu. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það er grundvallarlöggjöf frá 1991 með skýrri markmiðsgrein. Í markmiðsgreininni segir, með leyfi forseta:

„Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar.

Svo segir að það skuli gert með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti og með því að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna og unglinga, og svo koma fleiri atriði í 1. gr. Þetta er inngangurinn að lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þetta er sálin í því hvernig við viljum að félagsþjónusta sveitarfélaga sé hugsuð og hvernig við viljum að félagsþjónustan nálgist sitt viðkvæma verkefni að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar.

Virðulegi forseti. Nú get ég ekki annað sagt en að ég telji að það frumvarp sem er hér til umfjöllunar á þinginu fari í bága við markmiðsgrein laganna sjálfra. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta hafi komið til sérstakrar umfjöllunar í samskiptum ráðuneytisins við hv. velferðarnefnd, þ.e. að frumvarpið fari beinlínis í bága við markmiðsgrein sinna móðurlaga ef svo má að orði komast. (Forseti hringir.) Ég kem svo að annarri spurningu minni í síðara andsvari.