145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég held að það sé mjög mikið umhugsunarefni þegar við erum með slíka lykillöggjöf fyrir framan okkur eins og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem fara í gegnum Alþingi á árinu 1991 og við ætlum með þessari lagabreytingu að breyta í raun og veru anda laganna án þess að fá hæstv. félagsmálaráðherra til þess að horfast í augu við Alþingi, þjóð sína og fátækt fólk á Íslandi og segja að við ætlum að hverfa frá markmiðunum sem er að finna í 1. gr. laganna. Þá skal ráðherrann gera það vegna þess að það gengur ekki, í skjóli dagsins í dag, að láta eins og um sé að ræða einhverjar óverulegar breytingar á gildandi löggjöf og horfa fram hjá því að verið er að breyta eðli hennar eins og kom fram í umsögn Öryrkjabandalags Íslands við sambærilegt frumvarp á síðasta þingi.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann, af því það er mjög mikilvægt að halda þeim þætti til haga, um skýrslu Velferðarvaktarinnar um tillögur um aðgerðir til að vinna bug á fátækt sem kom út í janúar 2015. Í þeirri skýrslu sem er ágæt er meðal annars fjallað um viðmið til lágmarksframfærslu og sérstaklega um hugmyndir af því tagi sem er að finna í framlögðu frumvarpi.

Í tillögum Velferðarvaktarinnar segir að hún telji rétt að starfshópurinn fylgist náið með hvernig frumvarpinu reiði af í þinginu og má af orðum Velferðarvaktarinnar ráða að hún hafi áhyggjur af því að hér sé verið að horfa fram hjá afkomu efnalítilla barnafjölskyldna, sérstaklega einstæðra foreldra og barna þeirra, að ekki sé nægilega vel hugað að umhverfi þessa fólks. Ég vil spyrja um aðkomu Velferðarvaktarinnar að vinnu nefndarinnar, hvernig henni er komið, vegna þess að hér stendur sérstaklega að Velferðarvaktin eigi að fara yfir og fylgjast með úrvinnslunni hjá þinginu.

Svo langar mig í lokin (Forseti hringir.) að spyrja hvort ekki sé full ástæða til að velferðarnefnd láti fara fram sérstaka greiningu og ítarlega greiningu á áhrifum gildistöku frumvarpsins á fátækt á Íslandi og sérstaklega (Forseti hringir.) fátækt barna í ljósi UNICEF-skýrslunnar sem hér hefur verið rædd og nýrra (Forseti hringir.) markmiða Sameinuðu þjóðanna.