145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðuna. Líkt og margoft hefur komið fram í umræðunni held ég að við séum öll sammála um að við þurfum að auka virkniúrræði. Þetta höfum við margítrekað sagt. En mig langar að taka undir það sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni, að þegar kemur að þessu máli þá kristallast ólík sýn á það hvernig við eigum að fá fólk til virkni og í rauninni kannski þar með svolítið hlutverk velferðarsamfélagsins.

Nú liggur það alveg fyrir að sveitarfélögin eru nú þegar að beita ýmsum skilyrðingum þó svo að þau hafi ekki til þess lagalega heimild. Mig langar að velta því upp við hv. þingmann hvort ekki væri nær, í stað þess að standa hér og deila um það hvort þetta muni leiða til aukinnar virkni fólks í samfélaginu, að Alþingi taki hreinlega af öll tvímæli og banni allar skerðingar til dæmis með vísun í lög um félagsþjónustu, og ef einhverjum finnst það of róttækt þá jafnvel að bæta við til vara þó ekki væri þá nema þar til fyrir liggja greiningar á því hvaða félagslegu afleiðingar það hefur og hefur haft fyrir þá sem nú þegar hafa verið beittir einhvers konar virkniskilyrðingum. Ég get svo sem alveg trúað því að þetta virki kannski á einhvern hluta af hópnum, en það eru hinir sem ég hef stóru áhyggjurnar af. (Forseti hringir.) Það eru hinir sem þetta virkar ekki á og ýtast þar með enn (Forseti hringir.) lengra út á jaðar samfélagsins.