145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Svar mitt er jú. Það er nefnilega þannig að óheft fjármálaöflin keyrðu hagkerfi Vesturlanda í þrot, allt var í kaldakoli, íslenska bankakerfið hrundi nánast eins og það lagði sig og mjög víða þurfti að fara í róttækar björgunaraðgerðir. Í Bandaríkjunum, löndum frelsisins, lagði ríkisvaldið til gríðarlega fjármuni og í Bretlandi, þeim löndum þar sem frjálshyggjan hefur fengið sem mest frelsi inn á fjármálamarkaðinn, þar þurfti ríkisvaldið að grípa inn í með mjög miklum fjármunum og leggja mikið af mörkum til að bjarga fjármálakerfinu.

En það er svo merkilegt að í eftirleiknum hefur verið vaxandi vilji til þess að taka ekki ábyrgð á afleiðingum fyrir fólkið sem bjó og býr í þessum ríkjum. Þar er kerfislægur vandi gerður að vanda ákveðinna einstaklinga af því að þeir sem eiga hagsmuni af stóru kerfunum og auðgast á þeim vilja ekki horfast í augu við það að við erum komin í ógöngur hvað skiptingu auðs og valda varðar.

Nú er það svo að jöfnuður jókst hér mjög á tímum síðustu ríkisstjórnar. Við munum sjá tölur um að það er að draga er úr honum því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar miða að því núna, hægri stjórnarinnar, að þóknast þeim sem mest hafa. Hæstv. ráðherra, Eygló Harðardóttir, leyfði sér áðan að tala um, hún var þó svo smekkleg að segja að fyrri ríkisstjórn hefði gert eitthvað, aðgerðir núverandi ríkisstjórnar í þá áttina en hún gat ekki nefnt eina einustu, ekki eina einustu aðgerð (Forseti hringir.) sem kæmi þeim sem verst standa vel.