145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það að við eigum að horfa til þess sem hv. þingmaður var að tala um. Þegar augljóslega er verið að hverfa frá því að jafna kjör fólks og aðstæður þess til að lifa mannsæmandi lífi eigum við ekki að taka okkur það til eftirbreytni. Ekki í þessu máli frekar en í svo mörgum öðrum.

Við eigum að hafa forustu um það, að mínu viti, að gera grunnnetið okkar þannig úr garði að fólk geti haldið reisn, fólk sem þarf að takast á við þann veruleika sem fylgir því að missa vinnuna, missa jafnvel tökin á lífinu í einhvern tiltekinn tíma. Það á ekki líka að þurfa að búa við það að það sé niðurlægt með því skerða mjög lágar tekjur um allt að helming í tvo mánuði þannig að það nánast lepji dauðann úr skel. Ég er hrædd um að það geti ýtt einhverjum yfir línuna þegar svoleiðis stendur á.

Ég hef ekki trú á því að flestir af þeim sem eru að sækja sér þjónustu eða stuðning til sveitarfélaganna séu þar af því að þeir nenni ekki út á vinnumarkaðinn. Það er ýmislegt sem getur legið þar undir sem erfitt er að höndla og takast á við. Það eru meðal annars geðlægir sjúkdómar sem eru hvað erfiðastir þar. Eins og ég hef sagt þá þarf líka að sýna fram á að vinnumarkaðurinn sé tilbúinn til að taka við fólki svo að vel sé. Og hann er það ekki, hann er ekki tilbúinn til að bjóða fólki 20% eða 30% vinnu, eða hvað það nú hefur tækifæri til. Það getur kannski mætt í vinnu í dag en hugsanlega ekki á morgun vegna þess að staða þess er jú þannig (Forseti hringir.) að það á erfitt með að fara fram úr á morgnana. Þá kemur hinn stuðningurinn til, en hann á að vera með jákvæðum formerkjum.