145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er nefnilega stóra spurningin: Hvað verður um fólk? Síðast þegar við spurðum að þessu í velferðarnefnd, eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir man, fengum við þau svör að sveitarfélögin vissu það ekki. Kannski hafa þau tekið sig á og reynt eitthvað að afla upplýsinga um það og fundið til ábyrgðar gagnvart þessum íbúum sveitarfélaganna en að því munum við komast þegar nefndin fær þetta mál til umfjöllunar.

Við sem tölum gegn skilyrðingunum tölum ekki gegn alls kyns aðgerðum til að fá fólk til þátttöku. Það hefur verið tíðkað lengi að djöflast í fólki og það ekki látið í friði. Það hefur andleg áhrif á fólk að standa fyrir utan og lifa við langvarandi atvinnuleysi. Það þarf oft að gera mikið til þess að fá fólk til þátttöku en það gerir maður ekki með hótunum heldur hvatningu. Því er ég hlynnt. Ég tel að við eigum að vera óhrædd við það og nota fjármuni í það verkefni. Við viljum öll vera þátttakendur í okkar samfélagi og bera ábyrgð á okkur sjálfum.

Ég hef kynnt mér þessi mál í þessum umræðum öllum af því að þetta liggur mér þungt á hjarta. Í Svíþjóð hafa um 100 þús. manns verið í einhvers konar virkniúrræðum meira og minna síðustu tíu árin. Miðað við ástandið fyrir tíu árum hafa 120 þús. láglaunastörf horfið. Það eru líka breytingar á vinnumarkaði sem hafa áhrif á (Forseti hringir.) möguleika fólks til framfærslu. Við eigum að horfa á þá hlið málsins en ekki einstaklingsvæða stóran kerfisvanda.