145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Við höfum átt hér töluvert samtal í dag. Hv. þingmaður hefur nokkrum sinnum í máli sínu nefnt það að við erum ekki með lög sem banna mismunun á vinnumarkaði og því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort við séum ekki hér að fást við sömu hugsanaskekkju og í umræðunni um starfsgetumat í stað örorkumats.

Fólk sem er metið til 75% örorku á rétt á örorkulífeyri og margt af því fólki, eða ákveðinn hópur, getur unnið, einhverjir geta unnið nánast fulla vinnu, fæstir, einhverjir geta alls ekki unnið, en stór hópur gæti unnið með sveigjanleika eitthvert örlítið starfshlutfall og mundi langa mjög til þess en vinnumarkaðurinn býður bara ekki upp á slík störf. Þar liggur stóri vandinn. Við erum í tíu ár búin að vera með nefndir í gangi við að ræða starfsgetumat, að nú þurfi að breyta nálguninni við örorkulífeyrisþega, það þurfi að meta hvað þau geta en ekki hvað þau geta ekki. Þetta er pínu fyndið af því að þetta er umræða um eitthvað sem er ekki raunverulega vandamálið. Hið raunverulega vandamál er skortur á störfum, ekki vilji fólks með erfiða, langvarandi sjúkdóma til að vinna. Almennt vill fólk það ef það hefur tök á og ef það fær vinnu sem hæfir aðstæðum þess og sem það treystir sér til að sinna. Þá þarf ákveðinn sveigjanleika og lágt starfshlutfall. Í nefndum ræðum við um öryrkjann en ekki kerfið sem gerir fólki með örorkumat ókleift (Forseti hringir.) að stunda vinnu, nema nokkrum, allt of fáum.