145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

málefni ferðaþjónustunnar.

[15:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um stöðuna í málefnum ferðaþjónustunnar sem er löngu hætt að vera viðfangsefni eins einstaks ráðherra heldur farið að vera alvarlegt vandamál í landinu öllu. Fjöldi ferðamanna nú í janúar var jafn mikill og í júnímánuði árið 2012. Ríkisstjórnin hefur algjörlega klúðrað því að bregðast við þessari fjölgun og klúðrað gjaldtöku af ferðamönnum allan þennan tíma. Það er óhugsandi að 330 þús. manna þjóð geti af skattfé sínu byggt innviði sem dugi fyrir 400 þús. manns á hverjum tíma. Það mun setja óbærilegar byrðar á okkur og bitna á heilbrigðisþjónustunni sem við búum við og velferðarþjónustunni sem við búum við að öðrum kosti. Það verður að láta ferðamenn sjálfa greiða fyrir uppbyggingu innviða. Fólk er í lífshættu við fossa. Fólk er í lífshættu í Reynisfjöru. Mannskaði hefur orðið í Silfru og á Sólheimajökli. Við horfum yfir sviðið. Fólk er í lífshættu þegar það ekur Ölfusið. Samt stendur þessi ríkisstjórn fyrir Íslandsmeti í framkvæmdaleysi í samgöngumálum. Það eru engir nýir peningar í löggæslumál. Það er búið að spyrja innanríkisráðherra oft um það. Ekki er von á neinu. Í heilbrigðismálum eru engir nýir peningar. Heilbrigðisstofnun Suðurlands kemur með upplýsingar um að sjúkraakstur hafi aukist um 100% frá árinu 2012 og sjúkraflug um 300%. Engir nýir peningar eru í það.

Virðulegi forseti. Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við þessari stöðu? Þetta er orðið gríðarlega alvarlegt mál. Innviðir duga ekki. Fólk er í lífshættu og það verður að taka gjöld af ferðamönnum sjálfum. Við erum núna að kljást við afleiðingar þess að ríkisstjórnarflokkarnir börðust eins og ljón gegn öllum hugmyndum um gistináttagjald á síðasta kjörtímabili og tókst að koma í veg fyrir að það væri nægjanlega hátt til að standa undir raunverulegri innviðafjárfestingu. Þetta snýst ekki lengur um einn og einn göngustíg, virðulegi forsætisráðherra, þetta snýst um öryggi þjóðarinnar (Forseti hringir.) og innviðina sem hún býr við.