145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

málefni ferðaþjónustunnar.

[15:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það kemur ekkert svar við spurningunni: Hvernig á að mæta þessari brýnu þörf? Hvernig á að koma í veg fyrir að fólk sé í lífshættu? Hvar á að taka féð til að byggja nýja vegi til þess að mæta þessari fjölgun ferðamanna? Af almennu skattfé áfram? Þá verður minna til ráðstöfunar í heilbrigðisþjónustuna og önnur dýrmæt verkefni (Gripið fram í.) fyrir landsmenn. Það verður að byggja upp vegakerfið. Það verður að tryggja löggæslu við þessa hættulegustu ferðamannastaði. Það er ekkert fé til reiðu í það núna úr ríkiskassanum. Það er stóra spurningin sem hæstv. ráðherra er spurður. Það þýðir ekkert að sitja hjá og grobba sig af því að engin gjöld séu lögð á greinina. Það er vandamál að ekki eru lögð gjöld á ferðamenn sem koma til landsins þannig að þeir standi undir kostnaði við uppbyggingu innviða. Það er ekki hægt að setja fólk hér á landi í lífshættu við að aka um vegi þessa lands og bjóða upp á það (Forseti hringir.) að við þurfum að skerða heilbrigðisþjónustuna sem er völ á í landinu til að geta veitt ferðamönnum þjónustu sem þeir ættu auðvitað að borga sérstaklega fyrir sjálfir, þ.e. þá þjónustu sem þeir þiggja hér.