145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

málefni ferðaþjónustunnar.

[15:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég skil ekki þessa geðshræringu hv. þingmanns. Það er eins og hann telji að landið sé að verða fyrir innrás ferðamanna og mönnum standi ógn af þessu fólki hvar sem það kemur. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, að sjálfsögðu þarf að byggja upp innviði til að taka á móti þessum mikla fjölda. Sú uppbygging stendur yfir. Fjármagn hefur verið veitt af hálfu ríkisins í þá uppbyggingu, en það sama þurfa fyrirtæki í ferðaþjónustu að sjálfsögðu að gera og sveitarfélögin, allir þurfa að laga sig að þessari miklu fjölgun ferðamanna sem skila nú þegar gríðarlegum tekjum til ríkisins, og þetta virðist hv. þingmanni algjörlega hafa yfirsést, (Gripið fram í.) og fyrir vikið höfum við úr meira fjármagni að spila, eins og hv. þingmaður þekkir.

Hann heldur fram hreinum ósannindum um að engir nýir peningar séu í löggæslu og engir nýir peningar í heilbrigðismálin. Telur þingmaðurinn að hann geti talið einhverjum trú um þetta þegar menn sjá það blasa við sem hafa bara fyrir því að kynna sér helstu lykiltölur að aukning framlaga (Forseti hringir.) til heilbrigðismála hefur sjaldan verið meiri? Framlög til löggæslunnar voru stóraukin á liðnu ári og við sjáum áframhaldandi aukningu núna o.s.frv.