145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

afnám verðtryggingar.

[15:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Nú er langt liðið á kjörtímabilið og því langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvenær frumvarp um afnám verðtryggingar muni koma fram á þingi, sem hann lofaði fyrir síðustu kosningar.

Er mögulegt að hæstv. forsætisráðherra takist ekki að finna sátt um framkvæmd málsins í ríkisstjórn?

Forseti. Mig langar líka að nota tækifærið og leiðrétta hæstv. forsætisráðherra en nokkrar rangfærslur hafa ratað í ræður hans þar sem hann hefur staðfært meinlegar villur um stefnu Pírata um borgaralaun. Staðreyndin er sú að Píratar hafa ekki mótað stefnu um borgaralaun heldur hefur varaþingmaður Pírata lagt fram þingsályktunartillögu þar sem óskað er eftir því að skipaður verði starfshópur til að kortleggja leiðir sem tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu. Engar tölur eru nefndar í þeirri tillögu og því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvaðan hann fékk þær tölur sem hann byggði óttahjal sitt á í ræðu á viðskiptaþingi.

Þá er vert að benda hæstv. ráðherra á að borgaralaunum er meðal annars ætlað að koma í stað örorkubóta, atvinnuleysisbóta, ellilífeyris, námslána, fæðingarorlofs, vaxtabóta, barnabóta og ýmissa annarra bóta sem hjálpa fólki að draga fram lífið. Píratar vilja gjarnan ná fram nauðsynlegum upplýsingum úr ráðuneytunum til þess að hægt sé að hefja upplýsta mótun stefnu um borgaralaun ef það er geranlegt að hefja slíka vegferð. Ólíkt flokki forsætisráðherra vilja Píratar helst ekki slá um sig með loforðum sem ekki er hægt að efna, samanber fjöldamörg mál sem urðu til þess að um stutta stund varð flokkur hans nægilega öflugur til að koma honum í þá stöðu sem hæstv. ráðherra er í í dag.

Til upplýsingar fyrir hæstv. forsætisráðherra langar mig að vitna í grein þar sem fjallað er um borgaralaun sem Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, ritar í dag, með leyfi forseta. Ég ætla að fara yfir þá tilvísun í síðari hluta fyrirspurnar minnar.