145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

afnám verðtryggingar.

[15:21]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur. forseti. Akkúrat þegar maður hélt að loksins væri komið eitthvert mál frá Pírötum þar sem þeir væru að skýra stefnu eða boða stefnu kemur á daginn að svo er ekki. (Gripið fram í.) Þetta er ekki stefna. Þetta er til skoðunar. (Gripið fram í.) Það á að kanna hvort þetta geti hugsanlega verið sniðugt þannig að enn bíðum við eftir fyrsta stefnumálinu frá Pírötum, virðulegur forseti, (Gripið fram í.) og sjáum til hvort það kemur fyrir kosningar eða ekki.

Hv. þingmaður ætlar ekki einu sinni að kannast við málið sjálf núna. Hún heldur því fram að hv. varaþingmaður Pírata hafi flutt það. Flutti hv. þingmaður málið ekki með hv. varaþingmanni? Er það misskilningur?

Svo bendir hv. þm. Birgitta Jónsdóttir á að það sé líklega ofmat á kostnaðinum við þetta vegna þess að það eigi að koma í stað hinna ýmsu greiðslna, bóta, lífeyrisgreiðslna o.s.frv. og spyr hvernig hægt sé að fá það út að þetta séu endilega 300 þús. kr.

Jú, virðulegur forseti. Það er akkúrat málið að Píratar hafa verið ófeimnir við að halda því fram að allir ættu að fá að minnsta kosti 300 þús. kr. Þannig að ef þeir eru að boða að þetta komi í staðinn fyrir alls konar bætur, allar aðrar greiðslur sem fólk fær frá ríkinu, þá hljóta þetta að vera að minnsta kosti 300 þús. kr. Ég hef aldrei haldið því fram að það kynni ekki að vera meira sem þeir ætluðu að setja í þetta. En það hlýtur að vera að þeir ætli að setja að minnsta kosti 300 þús. kr. á mann nema þeir séu að hverfa frá því sem maður taldi að væri þó stefna Pírata, að allir ættu rétt á 300 þús. kr., lífeyrisþegar, öryrkjar og aðrir.