145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

afnám verðtryggingar.

[15:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Það er átakanlegt að hlusta á þvættinginn úr munni hæstv. forsætisráðherra. Ég verð bara að segja eins og er.

Ég ætla að vísa, með leyfi forseta, í grein ritstjóra Kjarnans:

„Ein helsta röksemdafærslan fyrir því að borgaralaun verði tekin upp er sú að fyrirséð er að aukin sjálfvirkni og tækniframfarir geti orsakað það að allt að helmingur starfa hverfi. Þau störf sem eru í mestri hættu eru láglaunastörf sem krefjast lítillar þekkingar. Einhvern veginn verður það fólk sem í dag sinnir þessum störfum að lifa þegar störfin leggjast af. Þess vegna eru 20 hollensk sveitarfélög að kanna fýsileika einfaldara kerfis borgaralauna. Stjórnvöld í Finnlandi eru að gera slíkt hið sama og í Sviss verður kosið um málið í júní næstkomandi. Bæði hægri og vinstri menn víða um heim hafa stutt hugmyndina um borgaralaun. Vinstri menn segja að þau muni draga úr atvinnuleysi vegna vélvæðingar í framleiðslugreinum og hægri menn hafa bent á að leiðin einfaldi velferðarkerfið gríðarlega.“

Hvernig gengur annars hæstv. forsætisráðherra að afnema og leysa höftin? Hvernig gengur annars að leysa bráðan og aðkallandi húsnæðisvanda þjóðarinnar? Munu frumvörp hæstv. félagsmálaráðherra ná í gegn (Forseti hringir.) ef engin samstaða er í ríkisstjórnarflokkunum um leiðir til að bregðast við bráðavanda? (Forseti hringir.) Halda þau loforð sem fleyttu hæstv. ráðherra í embætti? Er það ekki ábyrgðarhluti, hæstv. forsætisráðherra, að hætta að láta vandræðin hlaðast upp og vandann dýpka og gera eitthvað í málunum?