145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

aukin framlög til heilbrigðismála.

[15:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að sjúklingum sem liggja á göngum, eða veikjast jafnvel af hermannaveiki á spítölum landsins þessa dagana, sé lítil huggun í reikniæfingum hæstv. forsætisráðherra.

Bara svo því sé til haga haldið og hvað sem formaður Samfylkingarinnar segir þá var heilbrigðismálunum hlíft umfram alla aðra málaflokka alltaf allt síðasta kjörtímabil þegar kom að aðhaldsaðgerðum.

Landspítalinn taldi sig þurfa, ef ég man þetta rétt, 2,5 milljarða í viðbót við það sem var í fjárlagafrumvarpinu. Til hvers? Til þess að halda sjó. Hann fékk milljarð. Það er forgangsröðunin. Tölurnar tala sínu máli, hæstv. forseti, og veruleikinn er eins og hann er í heilbrigðiskerfinu, hversu langt aftur sem hæstv. forsætisráðherra vill fara til þess að láta sjálfan sig líta betur út en einhverja aðra.

Það var erfitt á árunum eftir hrun. Það er rétt og varð að gera ýmislegt býsna erfitt. En meðal annars vegna þess að það var gert þá erum við þó komin í mun betri stöðu til að gera betur og það er það sem þjóðin er að kalla eftir.

Hvernig væri nú, hæstv. forsætisráðherra, að (Forseti hringir.) prófa einu sinni að ræða málefnalega við stjórnarandstæðinga hér á þingi í staðinn fyrir að fara alltaf í útúrsnúninga? Mun ríkisstjórnin bregðast við þessu ákalli? Er að vænta aukinna fjármuna í heilbrigðismálin í ár?