145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

aukin framlög til heilbrigðismála.

[15:31]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Heyrði ég rétt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon væri að kalla eftir málefnalegri umræðu? Reyndar fór hann í beinu framhaldi að æpa að vanda, æpa einhverjar yfirlýsingar sem standast því miður enga skoðun.

Svarið við spurningu hv. þingmanns liggur fyrir. Ég svaraði henni hér áðan. Ríkisstjórnin hefur verið að stórauka framlög til heilbrigðismála og hún mun halda því áfram. Svarið liggur fyrir, virðulegur forseti. Og meira að segja var aukið fjármagn sérstaklega sett í að gera Landspítalanum betur kleift að sinna hlutverki sínu með rúmlega milljarðs framlagi sem líklega sparar Landspítalanum um 3 milljarða. Með því gat spítalinn fært fólk af dýrari deildum í annað rými og þar með nýtt þessa dýrari innviði betur í annað. Það sparaði spítalanum 2–3 milljarða.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon á því að leyfa sér að gleðjast yfir þeim (Forseti hringir.) viðsnúningi sem hefur náðst frá því að hann sat í ríkisstjórn.