145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

viðbrögð við undirskriftasöfnun.

[15:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég hef þá skoðun að ákall hópsins sem tekur þátt í undirskriftasöfnuninni taki til fleiri þátta en hjúkrunarheimila, lyfjamála og heilsugæslu. Ég held að þetta sé heilt yfir í öllum þáttum sem snerta það víðfeðma og mikilvæga kerfi sem heilbrigðisþjónustan okkar er.

Spurt er hvernig eigi að mæta þeim þáttum, því ákalli, þáttunum þremur sem hv. þingmaður spyr hér um. Varðandi heilsugæsluna hljóða áætlanir okkar í fjárlögum upp á að leitað verði eftir rekstraraðilum fyrir þrjár nýjar heilsugæslustöðvar á þessu ári á höfuðborgarsvæðinu. Það verkefni hefur verið langan tíma í vinnslu og verður væntanlega og vonandi kynnt í þessari viku. Þegar við horfum á hjúkrunarheimilin liggur sömuleiðis fyrir að þar verða gerðir samningar um þrjú ný hjúkrunarheimili á þessu ári, að hefja byggingu þeirra eða undirbúning þeirra, tvö á höfuðborgarsvæðinu og eitt á Suðurlandi. Á sama hátt er að komast í notkun nýtt hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi sem á uppruna sinn í leiguleiðinni svokölluðu.

Varðandi þriðja þáttinn sem hv. þingmaður spyr um, þ.e. lyfin, háttar þannig til að Íslendingar eru fremstir þjóða í því að leiða hér inn ný lyf við lifrarbólgu C, þannig að eitthvað er verið að vinna í þeim efnum þar sem öllum þeim sem smitaðir eru af henni er boðin sú lyfjameðferð. Til viðbótar því eru síðan lagðir inn fjármunir til innleiðingar nýrra lyfja upp á 100 millj. kr., sem er kannski ekki ýkja há fjárhæð í stóra samhenginu og vissulega gætum við gert betur í þeim efnum.