145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

ný aflaregla í loðnu.

[15:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Eftir áramót, eftir leiðangur hafrannsóknaskipa, var gefinn út loðnukvóti fyrir veiðar. Þar kom fram að meðal annars væri byggt á nýrri aflareglu sem tekin hefði verið upp. Ég tel mig fylgjast sæmilega vel með fréttum og atvinnumálum landsins, þar með talið sjávarútvegi, en þetta kom mér á óvart. Það varð tilefni þess að ég bað um fundi í atvinnuveganefnd til að ræða þessi mál, sem gert var, annars vegar á fundi með Hafrannsóknastofnun og ráðuneytinu, og svo hins vegar á fundi 2. febrúar með hagsmunaaðilum til að fá öll sjónarmið fram. Það er meðal annars ástæða þess að ég hef beðið um þessa sérstöku umræðu við hæstv. ráðherra til að ræða hina nýju aflareglu í loðnu.

Fyrir það fyrsta vil ég taka skýrt fram að sá sem hér stendur er ekki að tala fyrir ósjálfbærum veiðum. Við eigum að tala fyrir sjálfbærum veiðum, vera með langtímanýtingarstefnu í heiðri. Við þurfum að stunda rannsóknir okkar þannig að byggt sé á bestu gögnum sem hægt er að fá. Á síðu Hafrannsóknastofnunar segir meðal annars um þennan leiðangur, með leyfi forseta:

„Árni Friðriksson hóf mælingar út af Víkurál þann 4. janúar, en varð frá að hverfa að kvöldi 5. janúar vegna óveðurs í Grænlandssundi. Árni hóf aftur mælingar til vesturs frá Kolbeinseyjarhrygg þann 7. janúar. Mælingunni lauk 13. janúar út af Víkurál.“

Svo kemur nokkuð, virðulegi forseti, sem ég vil vekja sérstaka áherslu á:

„Aðstæður til bergmálsmælinga höfðu reynst erfiðar vegna veðurs mestalla yfirferðina og því ekki talið fært að nota niðurstöðurnar til ráðgjafar.“

Farið var í rannsóknarleiðangur vikuna 13.–20. janúar. Þá var veður gott og tókst að fara yfir stærra svæði, meðal annars með aðstoð nokkurra veiðiskipa. Þá var niðurstaðan þessi, bara eins og smellt hefði verið fingrum, rétt sisvona:

„Mat veiðistofns út frá þessari mælingu er um 675 þús. tonn.“

Það finnst mér ekki ásættanlegt. Hér ber ríkisstjórnin mikla ábyrgð og við öll vegna þess að Hafrannsóknastofnun er í fjársvelti hvað varðar það að halda úti skipum til mælinga. Hvort sem það var út af þessu eða einhverju öðru var gert út ræs á að skipin færu aftur út eftir fyrrnefnda fundi í atvinnuveganefnd og eru þau enn þá við mælingar.

Ég ítreka það sem ég sagði; það þarf að rannsaka þetta vel og við þurfum að vera viss um hvað við erum að gera. En hér eru miklar efasemdir. Menn í þessari grein tala um að gríðarlegar skekkjur séu í reiknilíkaninu og það kallar á stórauknar rannsóknir.

Sem dæmi um hversu mikilvægt það er fyrir þjóðarbúskap okkar má nefna að 100 þús. tonn sem koma í hlut okkar Íslendinga miðað við þessar mælingar gefa 11,6 milljarða króna. Þar af er launakostnaður 2,8 milljarðar, veiðigjöld 400 millj. kr., tekjuskattur 700 millj. kr. Með ýmsum öðrum gjöldum koma þarna um 2,7 milljarðar til ríkisins. Starfsfólkið hefur mikil laun af þessu, að sjálfsögðu. 13 fyrirtæki í tíu sveitarfélögum stunda þessar veiðar, 17 skip, þar af fjögur vinnsluskip, 260 sjómenn hafa vinnu við þetta og í landi eru 600 manns.

Það er þess vegna sem hin nýja aflaregla gerir það að verkum að veiða má 65–70 þús. tonnum minna samkvæmt hinni nýju aflareglu miðað við þá gömlu. Það eru í kringum 7–8 milljarðar í útflutningstekjur og svo geta menn leikið sér við að reikna hvaða áhrif það hefur fyrir starfsfólkið, sveitarfélögin og þjóðarbúið allt.

Í svona stuttri, sérstakri umræðu þar sem manni eru skammtaðar fimm mínútur til þess að fylgja málinu úr hlaði við ráðherra hef ég jafnframt lagt fram spurningar sem ég vona að ráðherra hafi fengið. Þær eru eftirfarandi:

Þar sem nýja aflareglan byggir á fjölstofna líkani, kallar það þá ekki á auknar rannsóknir á afdrifum loðnunnar og mati á hvernig afránið er, fiska og hvala?

Hefði ekki verið skynsamlegra að ljúka markvissum rannsóknum á þeim breytum sem lagt er upp með í nýju líkani og prufukeyra það í nokkur ár?

Er búið að tryggja fjármagn og vinnuáætlanir til að auka rannsóknir á loðnustofninum og afráni hans við Ísland með auknu úthaldi hafrannsóknaskipa og auknum fjárveitingum til Hafrannsóknastofnunar til að stunda þessar rannsóknir?

Er búið að meta hvaða áhrif ný aflaregla getur haft á loðnuveiðar með stækkandi þorskstofni og vexti hvala við Ísland?

Og að lokum: Ef hin nýja aðferðafræði dregur úr loðnuveiði, er þá búið að meta afleiðingar þess á einstakar byggðir (Forseti hringir.) sem byggja á því að vinna loðnu?

Virðulegi forseti. Þetta eru þær spurningar sem mig langar að leggja fyrir hæstv. ráðherra og vonast til að hér verði góð og málefnaleg umræða um þessa mikilvægu atvinnustarfsemi.