145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

ný aflaregla í loðnu.

[15:53]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég var svo djúpt sokkin í þetta með loðnuna að ég gleymdi að standa upp, fyrirgefðu.

Ég vil segja eins og málshefjandi, hv. þm. Kristján L. Möller, að þessar fréttir komu á óvart. Við vissum eiginlega ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þegar við uppgötvuðum það í atvinnuveganefnd með komu góðra gesta að þessi nýja aflaregla hefði í för með sér að umsvifin yrðu mun minni. Það er eðlilegt að fólk spyrji sig að því hvernig komist var að þeirri niðurstöðu. Mér þykir einsýnt og vil taka það fram, rétt eins og málshefjandi, að ég vil að veiðar séu sjálfbærar á þessum stofni sem og öðrum. Við þurfum að fara eftir því sem Hafrannsóknastofnun mælir með.

Alþjóðahafrannsóknastofnunin ákveður þessa nýju aflareglu en hún gerir það ekki rétt með gögnum frá Hafrannsóknastofnun. Þegar búið er að draga saman rannsóknir ár frá ári úti á loðnumiðum þá spyr maður sig hvort þetta séu réttar niðurstöður, af því að gögnin sem verið er að vinna með eru ófullnægjandi, þessar rannsóknir eða rannsóknargögn frá Íslandi. Alþingi veitir allt of lítið fé í hafrannsóknir og svo sjáum við það svart á hvítu að við megum veiða minna af því að gögnin nægja ekki til þess að leyfa okkur að veiða meira, við erum sammála um það. Þetta skiptir máli inn í alla kassa hérna, alla peningakassa, inn í veiðigjöldin hvað varðar (Forseti hringir.) umsvif. Ég er hrædd um að við séum að spara aurinn en kasta krónunni þegar við takmörkum fé til hafrannsókna.