145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

ný aflaregla í loðnu.

[16:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir málefnalega umræðu. Ég átti eftir að svara síðustu spurningu hv. þm. Kristjáns L. Möllers um áhrif nýrrar aflareglu á einstakar byggðir. Nú er það sem betur fer þannig að byggðirnar byggja ekki eingöngu afkomu sína á loðnu, þær byggja hana oftast nær á öllum uppsjávartegundunum. Eins og við þekkjum mætavel kom ný tegund inn í kerfi okkar, makríllinn, sem hefur reyndar verið að styrkja stöðu sína á kostnað loðnu á síðustu árum.

Ný aflaregla var hugsuð þannig að hún mundi gefa svipað magn þegar stofninn væri smár en minna þegar stofninn yrði stór. Hún mundi þá vera sveiflujafnandi, auðvitað með einhverjum skekkjumörkum. Svo er þá spurningin hvort þessi 50–70 þús. tonn núna séu skekkjumörkin.

Svo ég leiðrétti aðeins það sem fram kom þá ákveðum við aflaregluna en ICES staðfestir hana. Vegna orða hv. þingmanns má spyrja: Við hvað annað en vísindi Hafró á að styðjast? Þetta eru jú sömu gögnin og gamla aflareglan byggðist á. Ef þau vísindagögn eru ekki nægilega góð þá voru þau heldur ekki nægilega góð fyrir gömlu aflaregluna. Fjármál Hafró eru í góðu jafnvægi og er enn verið að mæla. Fleiri mælingar minnka óvissuna en þær geta vissulega gefið vísbendingu og orðið til þess að minnka magnið. Það er ekki alltaf á vísan að róa hvað það varðar.

Það er ánægjulegt að heyra samhljóminn um mikilvægi rannsókna og varðandi stuðning við aukið fé til hafrannsókna. Ég held að það sé mjög mikilvægt og gott að vita af þeim stuðningi hér. Staðreyndin er hins vegar sú að þessi aflaregla er varúðarregla. Hún segir í raun að við getum vottað vöruna á alþjóðlegum mörkuðum. Við leyfum líka náttúrunni að njóta vafans, ekki síst í ljósi þess að hér er um að ræða undirstöðustofn í íslensku lífhagkerfi. Þá þurfum við auðvitað að fara varlega með slíkan stofn.