145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

sala ríkisins á leigufélaginu Kletti ehf.

488. mál
[16:20]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir fyrirspurn hennar um sölu ríkisins á leigufélaginu Kletti ehf.

Eins og hv. þingmaður sagði er spurningin tiltölulega einföld: Hver er ástæða þess að Íbúðalánasjóður hefur sett leigufélagið Klett ehf. í söluferli og telur ráðherra að sala félagsins stuðli að því að markmiðum ráðherra í húsnæðismálum verði náð?

Í fyrsta lagi, til þess að ramma aðeins af spurninguna, er rétt að geta þess að Íbúðalánasjóður er sjálfstæð stofnun þannig að ákvörðun um sölu á eigum hennar er alfarið í höndum sjóðsins en ekki ráðherra. Að því sögðu er rétt að minna á að heimild sjóðsins til að reka leigufélag með fullnustueignum kom inn í lög um húsnæðismál, nr. 44/1998, með 4. gr. laga nr. 84/2012. Í athugasemdum með frumvarpinu þegar það var lagt fram segir um þá grein, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess fjölda íbúða sem Íbúðalánasjóður hefur eignast með þessum hætti þykir eðlilegt að metið verði hvort rétt sé að stofna leigufélag sem heldur utan um umsýslu sjóðsins vegna þessara íbúða. Miðað er við að leigufélagið verði aðgreint frá hefðbundnum rekstri Íbúðalánasjóðs enda þykir það ekki samrýmast hlutverki Íbúðalánasjóðs sem lánveitanda til íbúðarhúsnæðis að eiga og leigja út íbúðir til lengri tíma. Í þessu sambandi er það áréttað að verði þessi heimild nýtt verði að líta á þá ráðstöfun sem tímabundna enda ekki að öðru leyti gert ráð fyrir breyttu hlutverki Íbúðalánasjóðs í frumvarpi þessu.“

Það var síðan ítrekað í meirihlutaáliti velferðarnefndar, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur vert að árétta þær athugasemdir sem fram koma í greinargerð með frumvarpinu þess efnis að um tímabundna ráðstöfun er að ræða. Meiri hlutinn telur þann kost að Íbúðalánasjóður starfræki sérstakt leigufélag skárri en ef reynt yrði að selja allar íbúðir sem sjóðurinn hefur eignast á skömmum tíma, enda mundi það leiða til mikillar lækkunar á fasteignaverði og rýra þannig eignir almennings. Þar með er rekstur Íbúðalánasjóðs sem lánastofnunar aðgreindur frá rekstri leigufélagsins með stofnun sérstaks félags.“

Svo er haldið áfram:

„Meiri hlutinn telur einnig mikilvægt að unnið verði markvisst að sölu á eignum félagsins þegar aðstæður leyfa, en hvetur þó jafnframt til varfærni hvað það varðar þannig að tryggt verði að kjör sem í boði verða við sölu á eignum félagsins verði þannig að salan muni ekki leiða til mikillar hækkunar á leiguverði.“

Leigufélagið Klettur ehf. er einkahlutafélag í eigu Íbúðalánasjóðs. Megintilgangur félagsins er rekstur og útleiga á íbúðum til langs tíma. Félagið er rekið á markaðslegum grunni samkvæmt kröfum löggjafans og er ætlað að hámarka virði eigna Íbúðalánasjóðs. Leigugjöld taka því almennt mið af markaðsleigu og eru leigusamningar að jafnaði ótímabundnir en eitthvað er jafnframt um tímabundna samninga.

Farið er eftir húsaleigulögum varðandi réttarsamband leigutaka við leigufélagið, þar með talið um uppsagnarfrest og vanefndarákvæði og verður ekki séð að sala félagsins hafi nein áhrif á réttarstöðu leigutaka þar sem samningssambandið helst óbreytt, þ.e. á milli leigutakans og félagsins.

Hvað varðar síðan seinni hluta spurningar hv. þingmanns sem snýr að því hvort markmiðum með stefnu ráðherra eða ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum verði náð vil ég geta þess að sú stefna sem mörkuð hefur verið hefur komið fram í þeim frumvörpum sem ég hef lagt fram á þingi þar sem horft er til þess hvernig við getum stutt við og stuðlað að uppbyggingu leiguhúsnæðis fyrir efnaminni leigjendur. Þar er áherslan á stofnframlög sem ríkið veitir ásamt sveitarfélögunum fremur en að ríkið sé rekstraraðili að íbúðum á leigumarkaði.

Stuðningur ríkisins við almenna leigumarkaðinn verður og hefur verið í formi greiðslu tekjutengdra húsaleigubóta fremur en að ríkið sé í hlutverki leigusala. Því er sala Kletts í samræmi við þá stefnu sem mörkuð hefur verið í húsnæðismálum og unnið er að nú.