145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

sala ríkisins á leigufélaginu Kletti ehf.

488. mál
[16:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að freista þess að leggja spurningu fyrir hv. fyrirspyrjanda og hv. þingmenn sem telja það ekki gott skref að selja þetta fyrirtæki, Klett.

Ég velti stundum fyrir mér hlutverki ríkisins í hinum ýmsa iðnaði og er þeirrar skoðunar sjálfur að íslenskt hagkerfi sé ekki endilega nógu stórt til að búa við samkeppnisumhverfi á öllum hugsanlegum mörkuðum. Ég er því alltaf opinn fyrir hvoru tveggja, hvort heldur sem er rökum fyrir því að eitthvað eigi betur heima hjá ríkinu eða hjá einkaaðilum.

Ég kem í fljótu bragði ekki auga á rök fyrir því að þetta eigi betur heima hjá ríkinu eða hjá stofnun á borð við Íbúðalánasjóð. Ég hefði gaman af því að heyra eitthvað meira um röksemdir fyrir því.

Undirliggjandi vandi á húsnæðismarkaði er einfaldlega skortur á húsnæði og hann er af ýmsum toga. En ég sé ekki fyrir mér að lausnin sé sú að Íbúðalánasjóður haldi utan um fyrirtæki eins og Klett. Ég hefði gaman af því að heyra rök fyrir því að það sé gott fyrirkomulag.