145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

sala ríkisins á leigufélaginu Kletti ehf.

488. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Húsnæðismál eru annars vegar stórt efnahagsmál og hins vegar grundvallarvelferðarmál.

Á Íslandi hafa ekki verið öflug og stór félög á almennum leigumarkaði. Þetta hafa verið félagslegar íbúðir en launafólk með meðaltekjur sem hefur viljað leigja hefur ekki átt þess kost nema í tímabundinni leigu hjá einstaklingum, að mestu leyti.

Þess vegna var tækifærið notað og farið út í að byggja upp félag sem þetta, til þess að búa til kjölfestu inn í almenna leigumarkaðinn. Það átti sannarlega að vera tímabundin ráðstöfun en spurningin er hvort að núna þegar það er mikill húsnæðisskortur sé rétt að selja þetta félag út úr eigu ríkisins. Það eru að því er mér telst til ekki nema um 1.500 leiguíbúðir á markaði í eigu félaga á almennum markaði. Þetta er örlítill markaður og það er eðlilegt að ríkið víki ekki út af honum fyrr en við höfum sönnun fyrir því að það sé raunverulega að verða til markaður þarna.

Í raun og veru er um markaðsbrest að ræða þar sem ríkið hefur ákveðið að taka sér pláss til þess að stuðla að uppbyggingu almennra leigufélaga. Almenna leigufélagið og Heimavellir eru fyrirtæki sem eru af alvöru í rekstri sínum en við vitum ekki hvað þau ætla að gera á næstu árum. Enn sem komið er eru þau stækkandi og að auka fjárfestingar sínar. En þetta eru fyrirtæki sem geta að hálfu ári liðnu eða tveimur árum liðnum ákveðið að selja eignir sínar. Þá er ekkert öflugt félag á hinum almenna leigumarkaði.

Herra forseti. Ég spyr því: Telur ráðherra ekki of geyst farið í þessu og telur hún ekki að (Forseti hringir.) vegna skorts á húsnæði muni þetta hækka leiguverð?