145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

endurskoðun reglugerða varðandi hjálpartæki.

519. mál
[16:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að eiga við mig orðastað í dag og svara fyrirspurn minni. Í sjúkra- og almannatryggingakerfinu eru mörg flækjustig. Eitt þessara flækjustiga er að ekki er gerður greinarmunur á fólki með varanlega og stöðuga örorku eða fötlun og þeim hópi sem er með hugsanlega tímabundna eða breytilega örorku eða fötlun. Þetta hefur þær afleiðingar að fólk með stöðuga og langvarandi örorku og fötlun þarf ítrekað að sækja um endurnýjanir á heilbrigðisvörum, bílastæðakortum, þjálfun og rétti til að fá endurnýjun á hjálpartækjum þótt fyrirséð sé að einstaklingurinn búi við örorku eða fötlun alla ævi. Í reglugerð nr. 1155/2013 segir m.a. í 9. gr., sem fjallar um umsóknir um hjálpartæki, með leyfi forseta:

„Umsækjanda er skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að unnt sé að taka ákvörðun um rétt til styrks, fjárhæð hans, greiðslu og endurskoðun.

Við mat á umsókn skal leitast við að skoða heildarástand einstaklingsins. Í umsókninni skal ávallt koma fram mat á þörf fyrir hjálpartæki frá þeim heilbrigðisstarfsmanni sem vinnur að lausn fyrir viðkomandi einstakling enda hafi heilbrigðisstarfsmaður enga fjárhagslega hagsmuni tengda umsókninni. Enn fremur skal koma fram lýsing á skertri færni og rökstuðningur fyrir hjálpartæki.“

Mikil vinna og orka felst í því að þurfa að sækja ítrekað um endurnýjanir og er um mikla sóun að ræða á hæfileikum og fjármunum fólks sem þarf á hjálpartækjunum að halda, heilbrigðisstarfsfólks sem þarf að sinna gerð, viðtöku og yfirferð vottorða og umsókna og svo samfélagsins alls. Þar að auki hlýtur tækniþróun okkar tíma að ráða við skráningar sem koma í veg fyrir þetta flækjustig. Það er mikilvægt að skráningar um þá einstaklinga sem búa við stöðuga og varanlega örorku og fötlun sé geymd í gagnagrunni svo ekki þurfi stöðugt að gefa upplýsingar aftur og aftur. Krafan um sönnunarbyrði fatlaðs fólks, öryrkja og aðstandenda þeirra á eigin tilvist er niðurlægjandi og rýrir réttindi fólks til þess að búa við eðlislæga og mannlega reisn samkvæmt alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum.

Herra forseti. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hyggst hann eða gæti hann hugsað sér að endurskoða reglugerðir varðandi hjálpartæki, svo sem reglugerð um styrki vegna hjálpartækja nr. 1155/2013, í því skyni að draga úr þörf á endurnýjun umsókna um hjálpartæki eða styrki vegna hjálpartækja hjá þeim hópi fólks sem er með varanlega fötlun eða sjúkdóm?