145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

endurskoðun reglugerða varðandi hjálpartæki.

519. mál
[16:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er mikilvægt mál sem hv. þm. Páll Valur Björnsson ber upp. Hann gerði reyndar aðallega 9. gr. reglugerðar nr. 1155/2013 að umtalsefni. Hæstv. ráðherra var að svara því að hann teldi ekki að svo komnu tilefni til þess að endurskoða reglugerðina. Mig langar hins vegar að benda á að það eru atriði í reglugerðinni sem ég tel vera þess eðlis að beri að endurskoða, það eru aðrir hlutir en hv. þingmaður nefndi. Eitt er að samkvæmt núgildandi reglugerð eru ekki veittir styrkir vegna hjálpartækja sem eru einungis til notkunar í frístundum eða til afþreyingar. Mér finnst það vera eitthvað sem eigi að skoða. Eins kemur fram í 7. gr. að það sé sveitarfélaga að veita styrki vegna hjálpartækja til náms og atvinnu. Mér finnst að það þurfi að skoða samspilið á milli (Forseti hringir.) þessarar reglugerðar annars vegar og hins vegar þess sem sveitarfélögin eru að gera vegna þess að (Forseti hringir.) fatlað fólk hlýtur að eiga að búa við sama rétt óháð búsetu. (Forseti hringir.)

Svo að lokum af því að tími minn er búinn: Hefur þessi reglugerð verið skoðuð með tilliti til samnings (Forseti hringir.) Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?