145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með síðustu tveimur hv. þingmönnum um að í kjördæmavikunni var hrópað og kallað á lausnir í húsnæðismálum. Það eru fá verkefni brýnni úrlausnar fyrir okkur í stjórnmálunum en að skapa ungu fólki tækifæri til að koma sér þaki yfir höfuðið. Þar eru komin fram húsnæðisfrumvörp sem eru góðra gjalda verð en það er hvergi nærri nógu langt gengið.

Ég hlýt að spyrja, virðulegur forseti: Er það í alvörunni þannig að við í stjórnmálunum erum farin að tala um það að fólk eigi að búa í minni íbúðum í staðinn fyrir að tala um það hvað vextirnir hér í landinu eru háir? Er það svar stjórnmálamanna til ungs fólks, til nýrra kynslóða, við því hve vextir á Íslandi eru margfalt hærri en í öllum nágrannalöndum okkar og húsnæðiskostnaður þar af leiðandi margfaldur líka? Er það svar okkar til þessa unga fólks að við ætlum áfram að hafa vextina eins og þeir eru en við ætlum bara að minnka íbúðirnar sem það á að búa í?

Nú er full ástæða til að leita hagkvæmni í því að byggja húsnæði en hér verðum við að staldra við vegna þess að það er algerlega óþolandi, fyrir bæði atvinnulíf og fólkið í landinu, að hér eru breytilegir vextir 7–8%, margfaldir á við það sem gerist í nágrannalöndum. Við eigum að leggja til atlögu við það vaxtaokur, við þau fjármálaöfl sem búa okkur slík lífsskilyrði, svo miklu verri lífsskilyrði en í löndunum í kringum okkur, en ekki að krefjast þess af nýjum kynslóðum að þær búi í miklu minni íbúðum en við sjálf.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna